Handbolti

Leik­menn Evrópu­meistaranna taka á sig launa­lækkun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Vipers frá Kristiansand fagna Evrópumeistaratitlinum á síðasta ári.
Leikmenn Vipers frá Kristiansand fagna Evrópumeistaratitlinum á síðasta ári. EPA-EFE/Tibor Illyes

Kvennahandboltaliðið Vipers frá Kristiansand í Noregi hefur unnið Meistaradeildina undanfarin þrjú tímabil en mikilvægasta barátta félagsins í dag er kannski utan vallar.

Evrópumeistararnir frá suður Noregi þurftu að grípa til harðra aðgerða til að forðast gjaldþrot og félagið sagðist hafa fengið mikla hjálp í gær.

Leikmenn Vipers samþykktu þá allar sem ein að taka á sig launalækkun. Að auki hefur þjálfarateymið einnig tekið á sig launalækkun.

Félagið segir einnig að það hafi orðið breytingar á störfum stjórnenda félagsins.

„Við erum ánægð með hafa náð samkomulagi við leikmenn og þjálfarateymið til að finna lausn. Félagið þarf að draga úr kostnaði það sem eftir lifir tímabilsins og þetta var mikilvægt skref í rétta átt. Ég verð að hrósa bæði leikmönnum okkar, þjálfurum og starfsliði sem hafa öll áttað sig á alvarleika málsins. Við erum klár á því að við ætlum að vinna úr þessu saman,“ sagði framkvæmdastjórinn Benedicte Løyland.

Vipers Kristiansand þarf að safna nokkrum milljónum norskra króna, tugum miljónum íslenskra króna, fyrir 1. júní til að forðast gjaldþrot.

Í liðinu eru margar af öflugustu handboltakonum heims eins og norski landsliðsmarkvörðurinn Katrine Lunde, sænska landsliðskonan Jamina Roberts, hollenska skyttan Lois Abbingh, rússneska skyttan Anna Vyakhireva og króatíski landsliðslínumaðurinn Ana Debelic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×