Emad Albardawil flúði Gasa fyrir rúmum fimm árum. Flóttinn var langdreginn, kostnaðasamur og lífshætturlegur. Hann hélt fyrst til Eyptalands, næst Tyrklands, þar á eftir til Grikklands og loks til Íslands. Hann kom hingað til lands í október 2020 og hefur beðið á milli vonar og ótta að fá að hitta fjölskyldu sína aftur.
Heimili þeirra á norðanverðri Gasa eyðilagðist í loftárás skömmu eftir 7. október en Razan, móðirin, lýsir ástandinu á Gasa síðustu mánuði sem skelfilegu. Fólk sé hrakið í burtu frá heimilum sínum á nýjan og nýjan stað sem séu sagðir vera öruggir en séu það síðan ekki. Í andliti Razan mátti nema mikinn létti.
„Þetta er besta tilfinning sem ég hef fundið á ævi minni,“ sagði Razan um augnablikið þegar hún hitti Emad eftir fimm ára aðskilnað.
Razan var ekki í neinum vafa um hvað hún vildi gera fyrst á Íslandi.
„Að kynnast samfélaginu hér og læra tungumálið, auðvitað,“ sagði Razan og brosti.
Þær Bergþóra, Kristín og María Lilja flugu út til Kaíró á dögunum og aðstoðuðu Razan og strákana þrjá að komast yfir Rafah landamærin. Leiðin heim gekk vonum framar og fengu strákarnir að upplifa fjölmargar nýjungar.
„Við gáfum þeim allt of mikinn sykur og þeir vilja enn bara borða hamborgara í öll mál og eru bara ótrúlega skemmtilegir og yndislegir strákar og við erum svo glöð að fá þá og mömmu þeirra hingað til Íslands eftir margra ára bið,“ sagði Bergþóra.

Bergþóra sagði að það væri erfitt að lýsa augnablikinu þegar fjölskyldan fékk loksins að hittast án þess að tárast. Emad sjálfur óskaði eftir því sérstaklega að vera ekki í mynd. Hann væri ekki mikið fyrir sviðsljósið og endurfundir fjölskyldunnar væri honum afar persónuleg enda var þetta í fyrsta sinn sem hann hitti yngsta son sinn, Malek.
„Það eru bara miklar og stórar og gleðilegar tilfinningar. Djúpt, djúpt þakklæti og nú vill maður bara að fólk skilji að þetta eru ekki tölur, þetta eru ekki peð í pólitískri refskák. Þetta eru fjölskyldur, þetta er fólk sem á að fá að sameinast,“ sagði Bergþóra.

Kristín og Bergþóra eru komar heim en aðrar tvær konur flugu út til Kaíró í þeirra stað og ætla að halda áfram að reyna að bjarga fleiri dvalarleyfishöfum. Kristín vill undirstrikar þó að hún vilji að ríkisstjórnin axli ábyrgð sína.
„Við erum búin að taka ábyrgð á þessum börnum og maður tekur ekki ábyrgð á börnum og skilur þau svo eftir á hættulegasta stað í heimi. Það er mikilvægasti punkturinn,“ segir Kristín.