Xavi tilkynnti á dögunum að hann muni hætta sem knattspyrnustjóri Barcelona eftir núverandi tímabil. Xavi hefur stjórnað Barcelona síðan árið 2021 og sagði álag vera aðalástæðuna fyrir brottförinni.
Jurgen Klopp hefur einnig nýlega tilkynnt að hann ætli að hætta með Liverpool eftir tímabilið. Hann hefur verið orðaður við starfið hjá Barcelona án þess þó að tjá sig um málið sjálfur en annar Þjóðverji virðist vera afar áhugasamur um að taka við Katalóníuliðinu.
Fyrrum landsliðsþjálfari Þýskalands Hansi Flick virðist allavega vera tilbúinn að leggja ýmislegt á sig til að heilla forráðamenn Barca því fregnir herma að hann sé byrjaður að læra spænsku til að undirbúa sig fyrir mögulegt samtal. Þá á Flick sömuleiðis að vera byrjaður að skoða aðstoðarþjálfara sem tala bæði þýsku og spænsku sem gætu þá aðstoðað hann í samskiptum við leikmenn.
Þar hafa Oscar Corrochano og Christian Fiél verið nefndir til sögunnar en hvorugir eru þeir með störf hjá stærri félögum á ferilskránni.
Hansi Flick var aðstoðarþjálfari Bayern Munchen árið 2019 en tók við sem knattspyrnustjóri á tímabilinu 2019-20 eftir að Niko Kovac. Flick fékk áframhaldandi samning eftir að hafa stýrt Bayern til sigurs í deild, bikar og Meistaradeild á sínu fyrsta tímabili og vann deildina á ný árið eftir.
| BREAKING: Hansi Flick is looking forward to coaching FC Barcelona. He has already started learning Spanish & is looking for assistants who speak both German and Spanish. @Alfremartinezz pic.twitter.com/zafK19ZDp3
— Managing Barça (@ManagingBarca) February 11, 2024
Flick tók við þýska landsliðinu eftir Evrópumótið árið 2021 og stýrði því á heimsmeistaramótinu í Katar í desember árið 2022. Þar olli liðið miklum vonbrigðum og féll úr keppni eftir riðlakeppnina. Flick var síðan rekinn í september síðastliðnum eftir að Þjóðverjar töpuðu fyrir Japan en það var þriðji tapleikur þeirra í röð.
Það yrði óneitanlega áhugavert ef Flick fengi tækifærið hjá Barcelona.