Skoðun

Katrín Jakobs­dóttir <3 Trump

Gabríel Ingimarsson skrifar

Á dögunum sagði Donald Trump að hann myndi ekki koma NATO ríkjum til varnar sem verja minna en 2% af landsframleiðslu til varnarmála. Sagði hann jafnframt að hann myndi hreinlega hvetja Rússa til þess að ráðast á þau ríki sem ekki uppfylli þessi viðmið. Ummælin vöktu hörð viðbrögð og eru talin til marks um það að líklegasta forsetaefni Repúblikana ætli sér að grafa enn frekar undan varnarbandalaginu. Varnir og öryggi okkar Íslendinga byggja á aðild okkar að NATO, öll okkar egg eru í þeirri körfu. Það er því mikið öryggismál fyrir okkur sem þjóð að geta stólað á það. Langstærstur hluti þjóðarinnar eru hlynnt aðild Íslands að bandalaginu.

Ummæli forsetans fyrrverandi hljóta þó að vekja sérstaka kátínu í röðum íslenskra hernaðarandstæðinga. Enda hafa þeir löngum haft það að markmiði að Ísland sé með öllu varnarlaust og standi utan NATO. Það sama má segja um VG, flokk Katrínar Jakobsdóttur sem barist hefur gegn veru Íslands í bandalaginu í áraraðir og vill að Ísland segi sig úr NATO.

Hér hafa því skapast skoðanasystkini úr óvæntri átt, Donald Trump og Katrín Jakobsdóttir. Forsætisráðherra Íslands hlýtur að kætast yfir þessari tilraun Trump til að grafa undan samstöðu innan NATO. Enda er opinbert markmið VG að á Íslandi séu engar raunverulegar varnir. Vinstri græn hljóta því að sjá mikil tækifæri í endurkjöri Trump.

Segjum sem svo að Trump verði endurkjörinn. Segjum sem svo að honum takist að mylja undan NATO. Segjum sem svo að hingað komi rússneskt herlið. Þá getum við væntanlega stólað á hernaðarandstæðingana í VG að minna Pútín á að Ísland hafni jú hernaði og standi fyrir frið. Einfalt ekki satt?

Samtök hernaðarandstæðinga geta þá hrósað happi. Lifi friðurinn.

Höfundur er forseti Uppreisnar - Ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×