Athletic Bilbao vann fyrri leik liðanna 1-0 og stóð því vel að vígi fyrir leik kvöldsins. Staða liðsins batnaði svo til muna þegar Inaki Williams kom liðinu í forystu strax á 13. mínútu eftir stoðsendingu frá bróður sínu, Nico Williams.
Þeir bræður voru svo aftur á ferðinni á 42. mínútu, en þá snerist dæmið við. Í þetta sinn skoraði Nico Williams eftir stoðsendingu frá Inaki og staðan því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Gorka Guruzeta gerði svo endanlega út um einvígið þegar hann skoraði þriðja mark heimamanna eftir um klukkutíma leik og niðurstaðan varð 3-0 sigur Athletic Bilbao.
Samanlagt vann Athletic Bilbao 4-0 og liðið er þar með á leið í úrslit spænska konungsbikarsins þar sem Mallorca verður andstæðingurinn.