Lengjubikar karla
Riðill 1
FH tók á móti Gróttu í Skessunni og hafði betur, 1-0, eftir mark frá fyrirliðanum Birni Daníel Sverrissyni.
FH hefur nú leikið alla fimm leiki sína og er með 9 stig á meðan Grindavík er með 10 stig á toppnum eftir fimm leiki.
Bæði Keflavík og Breiðablik geta náð toppsætinu en þau eiga einn og tvo leiki eftir. Seltirningar eru hins vegar á botninum án stiga eftir fjóra leiki.
Riðill 2
Fram og ÍBV skildu jöfn 2-2 en leikið var í Úlfarsárdal. Heimamenn komust tveimur yfir í fyrri hálfleik með mörkum frá Jannik Pohl Holmsgaard og Guðmundi Magnússyni. Þetta var fyrsta stig ÍBV sem situr neðst í riðlinum, Fram er einu sæti ofar með 4 stig.

Riðill 3
Þór Akureyri tók á móti KR í riðli 3. Gestirnir mættu með ungt lið til Akureyrar og vantaði mörg af þeirra stærstu nöfnum. Það nýttu heimamenn sér en staðan var 3-0 Þór í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik hættu Þórsarar við einu mark til viðbótar og unnu þeir sannfærandi 4-0 sigur. Mörkin skoruðu þeir Aron Ingi Magnússon, Marc Rochester Sörensen, Fannar Daði Malmquist og Bjarki Þór Viðarsson.
Bæði lið hafa leikið fjóra leiki og eru í 1. og 2. sæti riðilsins. Þór Ak. á toppnum með fullt hús stiga og KR þar á eftir með 9 stig.
Riðill 4
Íslands- og bikarmeistarar Víkings voru í heimsókn á Dalvík þar sem þeir mættu heimamönnum í Dalvík/Reyni. Daði Berg Jónsson kom Víkingum yfir og Danijel Dejan Djuric - sem er enn leikmaður Víkings - tvöfaldaði forystuna, staðan 0-2 í hálfleik.
Í síðari hálfleik skoraði Ari Sigurpálsson tvívegis og Pablo Punyed einu sinni. Lokatölur 5-0 Víkingum í vil. Víkingur er á toppi riðilsins með 9 stig en hefur lokið leik. ÍA og KA eiga leik til góða og geta því náð toppsætinu. Dalvík/Reynir situr á botninum án stiga.
Lengjubikar kvenna
Riðill 1
Þar mættust Fylkir og Breiðablik í leik sem var eign gestanna úr Kópavogi. Agla María Albertsdóttir skoraði þrennu í fyrri hálfleik og Birta Georgsdóttir bætti við fjórða markinu þegar klukkustund var liðin. Lokatölur í Árbænum 0-4.

Í sama riðli tók Tindastóll á móti Íslandsmeisturum Vals. Fór það svo að gestirnir unnu þægilegan 3-0 útisigur. Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir braut ísinn, Amanda Jacobsen Andradóttir tvöfaldaði forystuna og Helena Ósk Hálfdánardóttir kórónaði góðan leik Vals með marki í blálokin.
Valur er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Blikar hafa leikið einum leik minna en unnið alla sína leiki. Fylkir er með fjögur stig að loknum 4 leikjum á meðan Tindastóll er með aðeins eitt stig eftir þrjá leiki.
Riðill 2
ÍBV sótti Víking heim en leiknum lauk með 4-2 sigri Víkings. Bergdís Sveinsdóttir kom Víkingum yfir og Sigdís Eva Bárðardóttir tvöfaldaði forystuna undir lok fyrri hálfleiks.
Sigdís Eva kom Víking 3-0 yfir áður en Kristín Klara Óskarsdóttir minnkaði muninn. Helena Hekla Hlynsdóttir minnkaði muninn enn frekar í uppbótartíma en örskömmu síðar bætti Bergdís við öðru marki sínu og fjórða marki Víkings.
Þá mættust Þór/KA og Þróttur Reykjavík í Boganum. Vann heimaliðið stórsigur, lokatölur 6-2. Bríet Jóhannsdóttir skoraði fyrstu tvö mörk heimaliðsins áður en Sandra María Jessen bætti því þriðja við.

Angela Mary Helgadóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan því 3-1 áður en Margrét Árnadóttir kom Þór/KA 4-1 yfir. Sandra María bætti við fimmta markinu og fullkomnaði þrennu sína á 81. mínútu. Freyja Karín Þorvarðardóttir minnkaði muninn skömmu síðar, lokatölur 6-2.
Þór/KA er á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Víkingar eru með sex stig eftir jafn marga leiki. Þróttur Reykjavík er með eitt stig og ÍBV er án stiga.