Fótbolti

Sjáðu magnaða hælsendingu Orra gegn Man. City

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson lagði upp mark í fyrri hálfleik gegn Manchester City. Hér á hann í baráttu við Erling Haaland sem skoraði þriðja mark City.
Orri Steinn Óskarsson lagði upp mark í fyrri hálfleik gegn Manchester City. Hér á hann í baráttu við Erling Haaland sem skoraði þriðja mark City. Getty/Shaun Botterill

Orri Steinn Óskarsson fékk langþráð tækifæri í liði FC Kaupmannahafnar í kvöld, gegn meisturum Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, og lagði upp mark með glæsilegum hætti í fyrri hálfleik.

Leiknum er ekki lokið þegar þetta er skrifað en staðan 3-1 fyrir City í hálfleik. Orri átti stóran þátt í marki FCK með því að gefa frábæra hælsendingu á norska landsliðsmanninn Mohamed Elyounoussi, eins og sjá má hér að neðan.

Klippa: Stoðsending Orra gegn Man. City

Markið kom eftir tæplega hálftíma leik og FCK minnkaði þannig muninn í 2-1. Dönsku meistararnir unnu boltann á miðjum vallarhelmingi sínum og Orri setti fljótt í fluggír til að opna á sendingu frá Elyounoussi sem kom á hárréttum tíma. Orri gaf svo boltann til baka með hælnum og Norðmaðurinn kláraði færið vel.

Vakið hefur furðu margra að Orri skuli ekkert hafa spilað með FCK á þessu ári, og raunar verið utan hóps í þeim þremur deildarleikjum sem liðið hefur spilað eftir vetrarfrí. Hann var á varamannabekknum allan tímann í fyrri leiknum við City, sem enska stórliðið vann 3-1.

Í kvöld fékk Orri ekki bara sínar fyrstu mínútur með FCK á árinu heldur sæti í byrjunarliðinu, og er þegar búinn að þakka fyrir sig með stoðsendingu gegn Evrópumeisturunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×