Katla María hafði átt frábæran leik fyrir Selfoss og skorað fjögur mörk gegn Stjörnunni í gær þegar hún lenti afar illa eftir skottilraun, á tuttugustu mínútu. Selfoss var þá yfir, 9-7.
Nú er komið í ljós að Katla María braut sköflunginn en þetta staðfesti Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is. Í frétt handbolta.is segir að Katla María hafi einnig farið úr vinstri ökklalið.
Þar sem Katla María lá óvíg á vellinum virtist enginn lengur hugsa um sætið í bikarúrslitaleiknum, sem í boði var, og þusti bæði Stjörnufólk og Selfyssingar að til að huga að henni. Nokkuð hlé var á leiknum áður en Katla María var borin af velli og klöppuðu allir í Höllinni vel henni til stuðnings þegar hún yfirgaf svæðið.
Spilað hverja mínútu og verið hjartað í liðinu
Án Kötlu Maríu náði 1. deildarlið Selfoss engu að síður að gefa Stjörnunni háspennuleik sem fór í framlengingu en þar hafði Stjarnan að lokum betur, með minnsta mun, 26-25. Stjarnan mætir Val í úrslitaleiknum á morgun.
Eyþór þjálfari sagði í viðtali við Vísi strax eftir leik í gærkvöld að það hefði verið áfall fyrir alla að horfa upp á Kötlu Maríu meiðast svo alvarlega.
„Katla María hefur spilað með þessu liði í 18 mánuði og spilað hverja einustu mínútu þar sem hún hefur verið hjartað í liðinu. Að þetta hafi gerst á þessu sviði eru gríðarleg vonbrigði fyrir hana sérstaklega. Ég hef ekki heyrt neitt en ég sá þetta og þetta leit ekki vel út.“