Einræðisherrann sjálfur settist undir stýri á einum skriðdreka og tók þátt í æfingu þar sem líkt var eftir orrustu. Kim kallaði umrædda skriðdreka þá öflugustu í heimi, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar frá Suður-Kóreu.
Skriðdrekar þessir voru fyrst sýndir í skrúðgöngu árið 2020 en sérfræðingar segja þessa sem sést hafa á myndum af æfingunni hafa verið betrumbættir síðan þá. AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að óljóst sé hvort Norður-Kórea hafi bolmagn og kunnáttu til að framleiða skriðdrekana í massavís.

Kim hefur verið iðinn við að láta taka af sér myndir með hermönnum og við æfingar. Á dögunum voru birtar myndir af Kim þar sem hann fylgdist með hermönnum æfa stórskotaliðsárásir og þar sem hann fylgdist með hermönnum æfa árásir.
Hermennirnir sem æfðu stórskotaliðsárásirnar í síðustu viku tilheyra herdeild sem hefur það hlutverk að gera slíkar árásir á Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, í upphafi mögulegs stríðs milli ríkjanna. Norður-Kórea gæti látið sprengjum rigna yfir borgina.
Árlegri heræfingu í Suður-Kóreu lýkur síðar í dag en slíkar æfingar valda iðulega reiði í Pyongyang. Spennan á Kóreuskaga hefur þó aukist til muna á undanförnum árum og Kim og aðrir ráðamenn í Norður-Kóreu ítrekað hótað stríði á undanförnum mánuðum.

Í ræðu sem hann hélt í janúar hét Kim því að fjarlægja úr stjórnarskrá Norður-Kóreu klásúlu um að ríkið sæktist eftir friðsamri sameiningu með Suður-Kóreu. Þess í stað yrði Suður-Kórea skilgreint sem helsti óvinur Norður-Kóreu og að þar myndi standa að kæmi til stríðs myndi Norður-Kórea innlima Suður-Kóreu.
Ónafngreindur ráðgjafi forseta Suður-Kóreu sagði blaðamönnum fyrr í vikunni að breyttur tónn Kims markaði ekki bara aukinn áróður heldur markvissa stefnubreytingu gagnvart Suður-Kóreu.
