Fjölmargir viðskiptavinir bílastæðaþjónustunnar Base Parking á Keflavíkurflugvelli lýsa slæmri reynslu sinni af viðskiptum við fyrirtækið. Formaður verkalýðsfélags Keflavíkur segir áhyggjur hafa verið uppi um starfsemi þess í fjöldamörg ár. Við förum á vettvang á Keflavíkurflugvelli í fréttatímanum.
Sextán hið minnsta eru látnir og tugir særðir eftir eldflaugaárás Rússa á borgina Odessa í Úkraínu í dag. Sorgardegi hefur verið lýst yfir í borginni á morgun. Þá hófust forsetakosningar í Rússlandi í dag; enn önnur sex ár af Vladímír Pútín blasa við.
Einnig kynnum við okkur stóraukin framlög til listamannalauna og verðum í beinni útsendingu frá Blaðamannaverðlaununum, sem haldin eru nú í kvöld á Kjarvalsstöðum. Við kynnumst einnig risavöxnum, brasilískum ketti og eiganda hans, sem freistar þess nú að fá köttinn skráðan á spjöld sögunnar.
Landsliðshópur karlaliðs Íslands í knattspyrnu var tilkynntur í dag og verður í eldlínunni í Sportpakka kvöldsins. Albert Guðmundsson er í liðinu, í fyrsta sinn síðan í júní í fyrra.