Körfubolti

Mögnuð sigur­karfa Ir­ving gegn meisturunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kyrie Irving sáttur í leikslok.
Kyrie Irving sáttur í leikslok. Vísir/Getty

Kyrie Irving var hetja liðs Dallas Mavericks þegar liðið vann tveggja stiga sigur á meisturum Denver Nuggets í NBA-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

Stórstjörnurnar Luka Doncic og Nikola Jokic mættust á gólfinu í áhugaverðum slag í Dallas í kvöld. Jokic og Denver eru í baráttu um efsta sæti Vesturdeildarinnar en Dallas um miðja deildina og að reyna að koma sér hjá því að keppa í umspili, hinu svokallaða „play in“ til að tryggja sig inn í úrslitakeppni.

Leikurinn í dag var góð skemmtun. Doncic fór fyrir liði Dallas í stigaskori líkt og svo oft áður en Jokic var í smá erfiðleikum og hitti ekki vel.

Þegar fjórði leikhlutinn var hálfnaður var Dallas með þrettán stiga forskot en meistarar Denver komu til baka og tókst að jafna metin og komast yfir þegar Jamal Murray setti niður þriggja stiga skot með 26 sekúndur á klukkunni.

Luka Doncic var þó ekki lengi að svara. Hann fékk boltann eftir innkast og skoraði, staðan þá jöfn 105-105. Murray fékk frábært færi í næstu sókn til að tryggja Denver sigurinn en skot hans geigaði. Dallas náði frákastinu og tók leikhlé með 2,8 sekúndur á klukkunni.

Það var hins vegar nægur tími fyrir Kyrie Irving að tryggja sigurinn. Hann fékk boltann úr innkastinu þegar Doncic var stífdekkaður. Irving var með Jokic á sér, þurfti að færa boltann yfir á vinstri höndina en tókst að skora með frábæru flotskoti um leið og flautan gall.

Lokatölur 107-105 og mikilvægur sigur Dallas í höfn.

Murray var stigahæstur í liði Denver með 23 stig, Michael Porter skoraði 20 og Jokic skoraði 16 stig, tók 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Í liði Dallas var Luka Doncic frábær með 37 stig og Irving skoraði 24.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×