Lewandowski hefur verið einn besti framherji heims undanfarin áratug og samdi við Börsunga sumarið 2022 eftir átta ára veru hjá Bayern Munchen, hvar hann sló hvert metið á fætur öðru og vann þýska meistaratitilinn öll ár sín í Bæjaralandi.
Lewandowski gerði fjögurra ára samning við Barca, sem gildir því til 2026, en Börsungar eru sagðir vilja losa Lewandowski af launaskrá í sumar. Sá pólski verður 36 ára gamall í ágúst og verður því á 38. aldursári þegar samningur hans í Katalóníu rennur út.
Atlético Madrid er sagt renna hýru auga til Pólverjans og hyggist festa kaup á honum í sumar. Fyrir eru framherjarnir Álvaro Morata, Antoine Griezmann og Memphis Depay.
Lewandowski skoraði 23 mörk í 34 deildarleikjum í fyrra er Barcelona vann spænska meistaratitilinn. Hann hefur aðeins slakað á klónni í ár, með 13 mörk í deildinni. Lewandowski hefur hins vegar leikið betur í síðustu leikjum en framan af leiktíð. Haft eftir honum í vikunni að frammistaða hans í sigri á Atlético Madrid um helgina hafi, að hans mati, verið hans besta á tímabilinu.
Ólíklegt þykir að Börsungar geti slegið Real Madrid við í titilbaráttunni á Spáni en þeir hvítklæddu eru með átta stiga forskot á toppi deildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af deildinni.
Xavi Hernández, þjálfari Barcelona, hefur tilkynnt að hann hætti í stöðu sinni að leiktíð lokinni.