Í dómi Landsréttar kemur fram að konan hafi sent unnusu mannsins einkaskilaboð á Instagram. Kvaðst hún hafa ætlað í nokkurn tíma að hringja í unnustuna, samband hennar og stefnanda kæmi stefndu ekki við en hún teldi rétt að upplýsa unnustuna um að stefnandi væri nauðgari
Eftirfarandi ummæli sendi konan á Instagram:
- „Mig langar samt að senda á þig til að láta þig vita að þessi maður er nauðgari. Hann hefur nauðgað manneskju sem er náin mér þegar sú manneskja var 8 ára.“
- „Ég veit að hann hefur líka sótt í það að vinna í kringum börn og hefur allaveganna verið í 3 barnagæslum en verið rekinn/látinn fara af þeim öllum miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið.“
- „Ég veit að ef ég væri með manni sem væri með barnagirnd eða nauðgari að þá myndi ég vilja vita af því.“
Sambærileg ummæli viðhafði hún nafnlaust á Facebook-hópnum „Stuðningur fyrir þolendur ofbeldis“ í janúar 2022.
Maðurinn krafðist þess að ummælin yrðu fjarlægð og að konunni yrði gert að greiða honum miskabætur.
Í dómi Landsréttar, sem staðfestur var með vísan til forsendna héraðsdóms, er fallist á að efni skilaboðanna væri tvímælalaust til þess fallið að skaða æru mannsins og ekki stæði það í vegi þess að þau hefðu verið viðhöfð í einkaskilaboðum.
Aftur á móti var talið að konan væri í góðri trú, sem réttlætt getur ærumeiðandi ummæli í mati dómstóla á mörkum tjáningafrelsis og friðhelgi einkalífs. Rakið var að umræddar upplýsingar sem konan taldi sig búa yfir hafi hún byggt á frásögn bróður síns hans upplifun, sem hann staðfesti fyrir dómi. Væri því ekki talið að konan hafi verið í vondri trú um sannleiksgildi ummælanna.
Þegar þessi sjónarmið væru virt í heild sinni yrði ekki talið að „nauðsyn bæri til þess í lýðræðislegu samfélagi“ að takmarka tjáningu konunnar með þeim hætti sem krafist var.