Körfubolti

KR aftur í deild þeirra bestu eftir stór­sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sætinu í Subway-deildinni fagnað.
Sætinu í Subway-deildinni fagnað. Vísir/Hulda Margrét

KR hefur unnið sér inn sæti í Subway-deild karla í körfubolta á næstu leiktíð. Sætið var endanlega tryggt með gríðarlega öruggum útisigri á Ármanni í kvöld þegar lokaumferð deildarkeppninnar fór fram.

KR féll úr Subway-deild karla á síðustu leiktíð og framan af þessu tímabili virtist alls ekki ljóst hvort liðið færi beint upp eða hvort það þyrfti að fara í umspil. Fyrir leik kvöldsins gegn Ármanni var ljóst að sigur myndi tryggja KR sæti í deild þeirra bestu.

Það var snemma ljóst að KR-ingar væru mættir til að sjá og sigra en liðið skoraði 27 stig gegn aðeins 13 hjá heimamönnum í fyrsta leikhluta.

Nimrod Hilliard IV var frábær í liði KR í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Leikurinn var örlítið jafnari í öðrum leikhluta en í síðari hálfleik stigu gestirnir úr Vesturbæ á bensíngjöfina og gjörsamlega völtuðu yfir mótspyrnuna. Lokatölur 61-90 og gestirnir úr Vesturbæ gátu leyft sér að fagna sæti í Subway-deild karla. Liðið vann 20 leiki og tapaði aðeins tveimur á leiktíðinni.

Nimrod Hilliard IV var stigahæstur í liði gestanna með 24 stig. Þar á eftir kom Friðrik Anton Jónsson með 14 stig ásamt því að taka 11 fráköst. Alfonso Birgir Gomez Söruson skoraði 11 stig í liði Ármanns.

Jakob Örn Sigurðarson stýrði KR upp á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari.Vísir/Hulda Margrét

Önnur úrslit

  • ÍA 94 - 87 Selfoss
  • ÍR 94 - 72 Hrunamenn
  • Fjölnir 91 - 74 Þróttur Vogum
  • Snæfell 48 - 99 Sindri
  • Þór Akureyri 86 - 79 Skallagrímur

Í úrslitakeppni 1. deildar karla mætast liðin í 2. til 9. sæti. Fyrsta umferð úrslitakeppninnar er eftirfarandi:

  • ÍR - Selfoss
  • Fjölnir - ÍA
  • Sindri - Þór Ak.
  • Skallagrímur - Þróttur V.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×