Innlent

Öllum rýmingum af­létt á Austur­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Seyðisfirði. Myndin er úr safni.
Frá Seyðisfirði. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Hættustigi og rýmingum vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði hefur verið aflétt. Rýmingar sem gripið var til á Austurlandi hafi því verið aflétt að fullu. Óvissustig vegna snjófljóðahættu er enn í gildi á Austfjörðum.

Tvö svæði á Seyðisfirði og eitt á Neskaupsstað voru rýmd vegna hættu á snjóflóðum á laugardagskvöld. Hættustigi var aflýst á Seyðisfirði í dag og þar með af síðustu rýmingunum aflétt. Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að íbúar húsa sem voru rýmd hafi þegar verið upplýstir.

Veðurstofan segir að á Austfjörðum hafi hlýnað, bloti sé kominn í snjóinn í neðri hluta hlíða og dregið hafi úr úrkomu og vindi. Í veðrinu sem geisaði um helgina snjóaði ekki mikið í hlíðarnar ofan við byggðina í Seyðisfirði en töluvert skóf þó til fjalla og dró í skafla á svæðinu, t.d. á Fjarðarheiði. 

Ekki hafi borist fregnir af snjóflóðum ofan Seyðisfjarðar í veðrinu en í Eskifirði hafi allstórt snjóflóð komið í ljós í Harðskafa þegar birti til í morgun. Veðurspár geri ráð fyrir batnandi veðri, lítilsháttar snjókomu til fjalla í norðlægri átt sem fari þó minnkandi með deginum.


Tengdar fréttir

Fólk á Austfjörðum sleppi því að vera á ferðinni

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi fundaði fyrir skemmstu með Veðurstofu og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum. Gert er ráð fyrir talsverðri úrkomu í nótt. Búið er að rýma svæði á Seyðisfirði og Neskaupstað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×