Innlent

Skoðar að leggja fram van­traust á ríkis­stjórnina

Sunna Sæmundsdóttir og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins. Vísir/Vilhelm

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, varð fyrir miklum vonbrigðum með nýja skipan ríkisstjórnarinnar. Hún vonast eftir kosningum og íhugar að að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina í heild sinni.

„Þau hanga saman á einhverjum málefnum sem þau eru búin að vera glíma við í sjö ár,“ segir Inga og bætir við að ný ríkisstjórn muni ekki fá neinn frið. Hún lagði í gær fram nýja vantrauststillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur sem matvælaráðherra. Sú tillaga eigi ekki lengur við nú þegar Svandís sé á leið í innviðaráðuneytið. 

„Ég hafði sagt að ég myndi elta hana þangað með tillöguna en það er nú kannski ekki þannig sem stjórnskipan landsins virkar, þannig að næsta mál á dagskrá er að hugleiða hvort við komum ekki fram  með vantraust á ríkisstjórnina í heild sinni.“

Og ertu að íhuga það?

„Já, mjög svo.“

Ertu ein að íhuga það eða eru einhverjir flokkar að því með þér?

„Þetta byrjaði bara þegar ég vissi að hún yrði ekki lengur matvælaráðherra. Ég svo sem bjóst við því að hún myndi flýja ráðuneytið en við erum að sjá að sjá að sá stjórnmálamaður sem hefur verið óvinsælastur í hverri skoðunakönnun á fætur annarri í langan tíma er orðinn forsætisráðherra. Ég veit ekki alveg hvaða grín er í gangi. Þetta er þriðja ráðuneytið hans á sjö, átta mánuðum og þetta er allavega ekki til þess fallið að vekja traust, og við þurfum einmitt á því að halda,“ segir Inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×