Fótbolti

Á barmi gjald­þrots og Ás­dís gæti misst fríar mál­tíðir

Sindri Sverrisson skrifar
Staðan er slæm hjá kvennaliði Lilleström í Noregi.
Staðan er slæm hjá kvennaliði Lilleström í Noregi. lsk-kvinner.no

Kvennalið Lilleström í fótbolta rambar á barmi gjaldþrots en norska félagið hefur gripið til alvarlegra aðgerða til að koma í veg fyrir að gjaldþrot verði niðurstaðan.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Lilleström sendi frá sér í dag. Einn íslenskur leikmaður er á mála hjá liðinu, sem leikur í efstu deild Noregs og varð í 3. sæti í fyrra, en það er Ásdís Karen Halldórsdóttir sem kom frá meistaraliði Vals í vetur.

Nú þegar hefur Lilleström sagt upp hluta samnings við nánast allt starfsfólk sitt, fyrir utan leikmenn. Stjórn félagsins mun nú starfa á heimaskrifstofu, æfingatímum verður fækkað í LSK-höllinni og til greina kemur að hætta með máltíðir fyrir leikmenn.

Í yfirlýsingu Lilleström segir ljóst að aðgerðirnar séu krefjandi fyrir alla sem að félaginu komi, en að þær séu nauðsynlegar til að vernda félagið.

Ásdís Karen Halldórsdóttir kom til Noregs frá meisturum Vals í vetur.Vísir/Diego

Carl-Erik Torp er sérfræðingur NRK um norsku úrvalsdeildina og hann segir fréttirnar sorglegar: „Þetta segir allt sem þarf að segja um áskoranirnar í fótbolta kvenna. Það er erfitt að reka félag á hæsta stigi.“

Torp gagnrýnir að staðan skuli hafa fengið að verða svo alvarleg að til greina komi að svipta leikmenn máltíðum.

„Þau neyðast til að gera þetta og eiga ekki aðra kosti. Þá þarf að skera niður alls staðar. Þetta er grafalvarleg staða, en ekki staða sem var bara allt í einu að koma í ljós.“

Ásdís Karen hefur skorað eitt mark í fyrstu fjórum leikjum sínum með Lilleström en liðið hefur unnið báða heimaleiki sína og tapað báðum útileikjum sínum til þessa. Næst mætir liðið Åsane á heimavelli um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×