Fótbolti

Ó­vænt U-beygja í Kata­lóníu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Xavi er hættur við að hætta.
Xavi er hættur við að hætta. Getty

Xavi Hernández er ekki á förum frá Katalóníustórveldinu Barcelona líkt og hann hafði lýst yfir fyrr í vetur. Hann verður áfram stjóri liðsins á næstu leiktíð.

Xavi hefur lýst gríðarmiklu álagi og pressu sem fylgi starfinu og ætlaði sér heilsu sinnar vegna að stíga frá borði.

Joan Laporta, forseti Barcelona, hefur hins vegar lýst yfir áhuga um að halda Xavi og reynt að sannfæra hann um að halda áfram síðustu vikur.

Það virðist hafa tekist í kvöld en samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur Xavi ákveðið að halda kyrru fyrir eftir fund með Laporta og Deco, yfirmanni knattspyrnumála hjá liðinu, í kvöld.

Xavi stýrði Barcelona til spænska meistaratitilsins og spænska ofurbikarsins á síðustu leiktíð en útlit er fyrir að Börsungar verji titilinn ekki í ár og þurfi að horfa á eftir honum í hendur fjendanna í Real Madrid.

Hann spilaði á sínum tíma 767 keppnisleiki fyrir Barcelona á árunum 1998 til 2015 og vann átta spænska meistaratitla, bikarinn þrisvar og Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×