Samkvæmt heimildum Íþróttadeildar Vísis þá voru meiðsli leikmannsins það alvarleg að Martin spilar ekki meira í þessari úrslitakeppni.
Allt lítur út fyrir að bandaríski bakvörðurinn hafi rifið hásin í leiknum á móti Grindavík í Smáranum í kvöld. Hásinin fór ekki alveg í sundur en rifnaði.
Martin er búinn að vera frábær með Keflavíkurliðinu í vetur og þetta er gríðarlegt áfall fyrir liðið. Keflavík er bikarmeistari og var til alls líklegt í úrslitakeppni Subway deildarinnar. Nú er allt hins vegar breytt.
Martin var búinn að skora 18 stig og gefa 3 stoðsendingar á aðeins 11 mínútum í Smáranum í kvöld þegar hann meiddist um miðjan annan leikhluta.
Keflvíkingar stóðu í Grindvíkingum án hans en Grindavík vann leikinn á endanum 102-94 og er komið í 1-0 í undanúrslitaeinvígi liðanna.
Næsti leikur verður í Keflavík á laugardaginn en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.