Daníel Guðjón Andrason, einn skipuleggjanda lautarferðarinnar segir hana hafa heppnast vel. Hátt í 150 manns hafi mætt, borðað saman kaffi og brauðmeti og gefist tækifæri á að skrá sig í nýstofnuðu hreyfinguna Háskólafólk með Palestínu.
„Við erum með kröfur til háskólans. Fyrst og fremst að háskólinn slíti samstarfi við háskóla í Ísrael og að HÍ verndi okkar málfrelsi til þess að við getum haldið svona viðburði og krafist aðgerða,“ segir Daníel í samtali við Vísi.

Þrátt fyrir að tilgangur fundarins hafi verið að krefjast vopnahlés á Gasa og styðja frjálsa Palestínu segir Daníel að hann sé ekki í líkingu við mótmæli í háskólum í Bandaríkjunum. Mótmæli nemenda í mörgum af þekktustu háskólum Bandaríkjanna hafa vakið athygli síðustu vikur, einkum í Columbia-háskóla í New York-borg, þar sem þrjú hundruð mótmælendur voru handteknir í dag.
„Það sem við erum að gera hér er ekki sambærilegt því sem er verið að gera í háskólum í Bandaríkjunum. Þetta er meiri fundur, fólk er að taka spjallið og við erum að vekja athygli á hreyfingunni,“ segir Daníel og að skipuleggjendur hafi fengið leyfi til þess að halda viðburðinn. Því hafi löggan ekki látið sjá sig í þetta skipti, eins og hún gerði þegar hópur háskólanema hugðist reisa tjaldbúðir á sama túni í síðustu viku.