Suðbway Körfuboltakvöld valdi Urban PlayAir leiksins þrátt fyrir að hann væri aðeins búinn að skora fimm stig nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Sigurkarfan hans breytti hins vegar öllu fyrir lið hans og undanúrslitaeinvígið.
Stefán Árni Pálsson spurði hetju kvöldsins hvernig honum liði aðeins nokkrum mínútum eftir þessa ótrúlegu körfu.
Búinn á því
„Ef ég segi alveg eins og er þá er ég tilfinningalega búinn á því. Þetta var erfiður leikur, bæði líkamlega og andlega. Við vissum hvað var mikið undir hjá báðum liðum og það var mjög erfitt að spila þennan leik. Ég er samt svo ánægður fyrir hönd stuðningsmannanna okkar sem hjálpuðu okkur svo mikið í kvöld,“ sagði Urban Oman.

„Við verðum bara að mæta aftur af krafti í næsta leik og taka þetta skref fyrir skref. Við munum sjá til hverju það skilar okkur,“ sagði Urban. Hann segir að lokakefið hafi ekki verið teiknað upp fyrir sig.
„Það var mikið um að vera á vellinum og ég reyndi bara að finna mér opinn stað á vellinum. Varnarmaðurinn týndi mér og skotið fór í körfuna. Það var yndisleg tilfinning að sjá hann fara í körfuna. Ég er svo ánægður,“ sagði Urban.
Átti ekki mitt besta kvöld
Hann var eins og áður sagði bara með fimm stig fyrir þetta lokaskot og endaði því með átta stig.
„Ég átti ekki mitt besta kvöld og þá sérstaklega hvað það varðar að skjóta boltanum. Þegar við horfum á þetta lokaskot þá var það mikilvægasta í leiknum og ég er ánægður að hafa sett það niður fyrir allt Keflavíkurfélagið og allt samfélagið hér. Nú er bara að halda áfram í næsta leik,“ sagði Urban. Urban segir að hans helsti styrkleiki inn á vellinum sé að spila góða vörn.
Þessi sigur var fyrir Remy
Hvernig var að koma inn í þennan leik án Remy Martin?
„Við vissum að við þurfum að vinna fyrir hann. Allir í liðnu gera sér grein fyrir því að þeir þurfa að taka eitt skref upp á við til að fylla í hans skarð. Okkur tókst það og þessi sigur var fyrir hann,“ sagði Urban sem viðurkennir að hann hafði aldrei áður skorað svona flautukörfu á ferlinum.
Vanalega tekin út af í lokasóknunum
„Ég er vanalega sá sem spila vörn og er oft tekinn út af í sókninni á lokasekúndum leikja. Þá fer ég oft út og það er skotmaður sendur inn á völlinn. Ég kem síðan aftur inn í vörnina. Það er góð tilfinning að ná þessu,“ sagði Urban.
Það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.