Við gerð kjarasamninganna fyrr í vetur skrifaði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Í tilkynningu frá Reykjavík segir að til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði muni ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að aðgerðum sem styðji við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Áskorun hafi verið send á sveitarfélög vegna þeirrar yfirlýsingar og er lækkun gjaldskrár meðal atriða sem þar hafi komið fram.

Reykjavík sé hagstæð fjölskyldum
Í tillögu borgarstjóra sem samþykkt var í borgarstjórn í gær kemur fram að Reykjavíkurborg hafi um árabil tryggt fjölskyldum í borginni og barnafólki hagstæðar gjaldskrár fyrir þjónustu sína og verið í fararbroddi meðal sveitarfélaga hvað það varðar. Þar segir enn fremur að það sé stefna borgarinnar „að vera áfram hagstæðasta borg fyrir fjölskyldufólk til að búa í með hliðsjón af gjaldskrám.“