Liðin þurfa því að mætast í þriðja sinn á heimavelli Fredericia á miðvikudaginn. Þar verður leikið til þrautar.
Fredericia átti góðan kafla um miðbik fyrri hálfleiks í leiknum í dag og náði þriggja marka forskoti, 7-10. Þá kom Ágúst Elí Björgvinsson inn á í markið hjá Ribe-Esbjerg og hann breytti gangi mála.
Hafnfirðingurinn varði allt hvað af tók og um miðjan seinni hálfleik snerist gæfan heimamönnum í vil. Þeir breyttu stöðunni úr 15-15 í 18-15 og komust í kjörstöðu.
Gestirnir gáfust hins vegar ekki upp, jöfnuðu í 21-21 og lokakaflinn var æsilegur.
Elvar Ásgeirsson kom Ribe-Esbjerg í 23-22 og Ágúst Elí varði svo tvö skot frá leikmönnum Fredercia.
Heimamenn fengu tvö vítaköst til að komast í 24-22 en klikkuðu á þeim báðum og Jonas Kruse Kristensen jafnaði í 23-23 fyrir gestina þegar tólf sekúndur voru eftir. Thorsten Fries sá svo til þess að það urðu lokatölur þegar hann varði skot frá Emil Grønbech í lokasókn Ribe-Esbjerg.
Elvar skoraði þrjú mörk fyrir heimamenn og gaf sex stoðsendingar. Ágúst Elí varði níu skot, eða 43 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í liði gestanna.