í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að með reikninum sé hægt að meta kolefnisspor framkvæmda með samræmdum og einföldum hætti.
„LOKI stendur fyrir; „lífsferilsgreining og kolefnisspor innviðaframkvæmda“ en reiknirinn metur kolefnisspor innviðaframkvæmda á hönnunarstigi með lífsferilsgreiningu, eða kolefnisspor yfir líftíma mannvirkisins.
Kolefnisreiknirinn er þróaður af verkfræðistofunni EFLU fyrir Vegagerðina, í samstarfi við fleiri aðila, en hann er að norskri og danskri fyrirmynd. LOKI mun gera Vegagerðinni kleift að samræma gerð lífsferilsgreininga fyrir innviði og opnar fyrir þann möguleika að nýta kolefnisspor inn í valkostagreiningu. Hann mun einnig auðvelda val á efni og hönnun með tilliti til þess að draga úr kolefnisspori mannvirkisins.
Fyrsta útgáfa LOKA nær yfir framleiðslu hráefna og flutning á verkstað, framkvæmdina sjálfa og stærra viðhald á líftíma mannvirkisins. LOKI mun svo á næstu árum þróast áfram til að ná yfir fleiri þætti og í takt við breytingar í stuðlum, orkugjöfum og hráefnum.
LOKI verður notaður fyrir verk á vegum Vegagerðarinnar en er jafnframt aðgengilegur öllum sem hann vilja nota. Það er von Vegagerðarinnar að hann nýtist öðrum framkvæmdaraðilum og verði þeim innblástur að sinni nálgun,“ segir í tilkynningunni.
Dagskrá
- Opnun fundar. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar
- LOKI, tilvist, tilgangur og möguleikar. Páll Valdimar Kolka Jónsson, Vegagerðin
- LOKI, uppbygging og gerð. Magnús Arason, EFLA verkfræðistofa
- LOKI í raunheimum. Einar Óskarsson verkfræðingur, Vegagerðin
Fundarstjóri: Hólmfríður Bjarnadóttir