Innlent

Notkun á TikTok og Snapchat dregst saman hjá níu til tólf ára börnum

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
99 prósent framhaldskólanema eiga sinn eigin farsíma og langflestir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast sammála því að hafa mikið samband við vini sína á samfélagsmiðlum.
99 prósent framhaldskólanema eiga sinn eigin farsíma og langflestir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast sammála því að hafa mikið samband við vini sína á samfélagsmiðlum. Getty

Hlutfall barna á aldrinum 9 til 12 ára sem nota samfélagsmiðlana TikTok og Snapchat lækkar töluvert frá árinu 2021. Youtube er algengasti samfélagsmiðillinn sem nemendur í 4. til 7. bekk nota en Google og Roblox koma þar á eftir. 99 prósent framhaldsskólanema eiga sinn eigin farsíma.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára. Skýrslan er fyrsti hluti af sex og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum.

Hátt hlutfall með eigin aðgang að samfélagsmiðlum þrátt fyrir aldurstakmark

Árið 2021 sögðust um 60 prósent barna á aldrinum 9 til 12 ára nota Tiktok og Snapchat, en það hlutfall er nú 36 prósent fyrir TikTok og 41,5 prósent fyrir Snapchat. Fleiri stúlkur en strákar nota miðlana í þessum aldurshópi. 13 ára aldurstakmark er á báðum miðlum.

Snapchat, Youtube og TikTok eru þeir miðlar sem flestir nemendur í 8.-10. bekk segjast nota. Heldur færri í þeim aldurshópi nota Roblox en í yngsta hópnum. Á framhaldsskólastigi eru Instagram, Snapchat og TikTok þeir miðlar sem flestir nemendur nefna. Youtube er sá netmiðill sem lendir í fjórða sæti. Meðal yngsta aldurshópsins (4.-7. bekk) er hátt hlutfall notenda Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok og Youtube með sinn eigin aðgang á miðlunum þrátt fyrir að aldurstakmörk þeirra séu 13 ára. 

99 prósent eiga farsíma

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall stráka og stelpna sem eiga sinn eigin farsíma er nokkuð jafnt. Mestur munur á snjalltækjaeign stráka og stelpna er eign á leikjatölvum en rúmlega helmingi fleiri strákar en stelpur segjast eiga sína eigin leikjatölvu. Þá er einnig hærra hlutfall stráka sem segjast eiga sitt eigið sjónvarp. Spjaldtölvueign er hins vegar örlítið algengari meðal stelpna en stráka. 99 prósent framhaldskólanema eiga sinn eigin farsíma og langflestir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast sammála því að hafa mikið samband við vini sína á samfélagsmiðlum.

Mikill meirihluti barna í grunnskólum á sinn eigin farsíma.

Fjórðungur hefur notað ChatGPT til að leysa skólaverkefni

Í könnunninni var spurt um þekkingu og notkun á snjallmenninu ChatGPT. Athygli vekur að mun fleiri strákar en stelpur þekkja til ChatGPT en munurinn minnkar með hækkandi aldri. Meðal nemenda á unglingastigi er 38 prósent munur á strákum og stelpum sem þekkja til snjallmennisins, þ.e. um sjö af tíu strákum þekkja til ChatGPT samanborið við þrjár af hverjum tíu stelpum.  Í framhaldsskóla þekkja 90% stráka til snjallmennisins en tæpur helmingur þeirra (46%) segist hafa notað það til að leysa skólaverkefni. 

Hér er hægt að nálgast skýrsluna í heild. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×