Innlent

Vill styðja van­trausts­til­lögu komi hún fram

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar lýsti því yfir að komi fram vantrauststillaga frá Miðflokknum á hendur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra muni hann styðja þá tillögu eindregið.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar lýsti því yfir að komi fram vantrauststillaga frá Miðflokknum á hendur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra muni hann styðja þá tillögu eindregið. Vísir/Vilhelm

Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar steig í pontu í dagskrárliðnum störf þingsins og lýsti því yfir að ef fram kæmi vantrauststillaga frá Miðflokknum á hendur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra þá myndi hann styðja þá tillögu heilshugar.

Eins og fram hefur komið eru Miðflokksmenn nú að bræða með sér hvort þeir muni leggja fram vantrauststillögu á hendur Bjarkey. 

Sigmar sagði fram komna áhugaverða stöðu á lokametrum þessa þings. Miðflokkurinn hafi boðað mögulega vantrauststillögu.

„Ég styð þá tillögu eindregið,“ sagði Sigmar. Hann sagði það bæði með vísan til embættisfærslna ráðherrans en ekki síður því að brýnt sé að koma þessari ríkisstjórn frá völdum. 

„Aðalatriðið er þetta að ríkisstjórnin er ekki að ná utan um það verkefni að vinna fyrir fólkið í landinu,“ sagði Sigmar. Hann sagði þau í ríkisstjórninni ekki hafa hina minnstu hugmynd um hvaða mál verði kláruð nú á lokametrum þingsins. „Niðurstaðan blasir ekki enn við, við erum enn í myrkrinu því flokkarnir eru ósamstíga um nánast hvert einasta mál.“

Sigmar nefndi þá það sem tekist var um á þinginu í gær sem eru afskipti Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra af lögreglunni, þá vegna netverslunar með áfengi. 

Lögreglan meti það svo að slík afskipti telji þau ekki heppileg í réttarríki og skipti þá engu hvort ráðherrann telji sig ekki hafa haft afskipti af lögreglu eða ekki, lögreglan meti það svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×