Erlent

Rúm­lega 500 látnir vegna hita í Mekka

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hiti hefur lengi hrjáð pílagríma í hinni árlega hajj-pílagrímsför.
Hiti hefur lengi hrjáð pílagríma í hinni árlega hajj-pílagrímsför. AP/Rafiq Maqbool

Að minnsta kosti 550 pílagrímar sem voru í hinni árlegu hajj-pílagrímsför til Mekka hafa látið lífið vegna hitans sem farið hefur upp fyrir fimmtíu gráður.

Flestir þeirra sem létust vegna hitans voru egypskir en einn er þó talinn hafa látist þegar hann tróðst undir mannfjölda. Guardian greinir frá.

Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa greint frá því að rúmlega tvö þúsund pílagrímar hafi leitað sér aðstoðar vegna hitatengdra kvilla en engin opinber gögn liggja fyrir um fjölda látinna.

Tæplega tvær milljónir tóku þátt í pílagrímsförinni þetta árið. Á hverju ári halda tugir þúsunda pílagríma í förina án þess að útvega sér sérstakt hajj-ferðaleyfi hjá yfirvöldum Sáda. Það gerir förina talsvert hættulegri þar sem þeir sem ferðast án leyfisins hafa ekki aðgang að sérstökum loftkældum rýmum ætluðum pílagrímum á leiðinni til Mekka.

Yfirvöld á svæðinu hvöttu pílagríma til að ganga um með sólhlífar, drekka mikið magn af vatni og halda sig í skjóli frá sólinni eins og þeir geta. Margar helgiathafnir hátíðarinnar fela þó í sér langa samfellda útivist yfir daginn. 

Í gær fór hitastigið upp í tæpar 52 gráður í skugga í Mekka þar sem helgihöldin fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×