Í auglýsingum í Lögbirtingablaðinu segir að félögin tvö hafi verið úrskurðuð gjaldþrota með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. júní.
Eignaðist félagið rétt áður en málið kom upp
Wok On var upphaflega í eigu stofnandans Kristjáns Ólafs Sigríðarsonar en í janúar síðastliðnum hafði Quang Lé, sem einnig er kallaður Davíð Viðarsson, eignast félagið að fullu eftir að hafa áður komið að opnun tveggja veitingastaða í keðjunni.
Í mars réðst Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í umfangsmiklar aðgerðir víða um land. Beindust aðgerðirnar að miklu leyti að fyrirtækjum Quangs. Quang hefur síðan þá haft stöðu sakbornings í umfangsmiklu sakamáli. Hann er grunaður um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.
Hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi, ásamt kærustu sinni og bróður sínum, þann 14. júní. Þau sæta þó öll farbanni.
Hlutar af viðskiptaveldi
Félögin tvö voru aðeins lítill hluti af umfangsmiklu viðskiptaveldi Quangs Lé, sem komið hefur í ljós að byggði að mestu leyti á bágri meðferð á starfsfólki.
WOKON ehf. hélt utan um rekstur veitingastaðakeðjunnar Wok On, sem taldi þegar mest var níu veitingastaði. WOKON ehf. skilaði 32 milljón króna hagnaði á síðasta ári og heildareignir eru 140 milljón króna.
EA17 ehf. skilaði sex milljóna króna hagnaði árið 2022 og heildareignir félagsins eru metnar á 35 milljónir króna. Félagið á engar fasteignir.
Félögin sem Quang á eða átti eru átta talsins og eru ýmist fasteignafélög, félög utan um rekstur veitingastaða og annað. Þetta eru Vy-þrif, Vietnam Restaurant, Vietnam Market, NQ Fasteignir, EA17 ehf., Vietnam Cuisine, Wokon ehf. og Wokon Mathöll ehf. en síðustu tvö félögin á hann í gegnum NQ Fasteignir.