Fótbolti

Real Madrid kaupir leik­mann en lætur hann fara um leið

Aron Guðmundsson skrifar
Joselu með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Real Madrid á Borussia Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu
Joselu með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Real Madrid á Borussia Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu Vísir/Getty

Real Madrid hefur virkjað ákvæði í lánssamningi sínum við Espanyol varðandi spænska leikmanninn Joselu og keypt hann á eina og hálfa milljón evra. Joselu verður þó ekki lengi leikmaður Real Madrid að fullu, hann verður um leið seldur fyrir sömu upphæð til liðs í Katar.

Það er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem að greinir frá þessu en Joselu varði síðasta tímabili á láni hjá Real Madrid frá Espanyol og kom þar við sögu í alls fjörutíu og níu leikjum, skoraði sautján mörk og gaf þrjár stoðsendingar. 

Joselu var þar með hluti af liði Real Madrid sem stóð uppi sem sigurvegari Meistaradeildar Evrópu sem og spænsku úrvalsdeildarinnar. Þá vann Real Madrid einnig spænska ofurbikarinn á umræddu tímabili. 

Í lánssamningi Real Madrid og Espanyol var ákvæði þess efnis að Madrídingar gætu gert Joselu endanlega að sínum leikmanni með því að reiða fram eina og hálfa milljón evra. 

Nú greinir Romano frá því að að hafi forráðamenn Real Madrid gert en Joselu mun þó ekki verða leikmaður liðsins lengi. 

Real Madrid hefur nefnilegast náð samkomulagi við katarska liðið Al Gharafa um sölu á Joselu til Katar. Al Gharafa mun greiða Real Madrid sama verð fyrir Joselu og spænska félagið gerði til að fá hann lausan frá Espanyol. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×