Talsverða athygli vakti árið 2022 þegar íslenskt-víetnamskt fjölskyldufyrirtæki festi kaup á Herkastalanum, 1.400 fermetra húsi í miðbæ Reykjavíkur, fyrir sléttan hálfan milljarð króna.
Greint var frá því að fjölskyldufyrirtækið, sem leitt var af hinum lítt þekkta Quang Lé, ætlaði að reka hótel og veitingastað í Herkastalanum. Húsið yrði endurnýjað „í samræmi við nútímakröfur“ en haldið í upprunalegt útlit og skipulag.
Seljandi Herkastalans var félagið Kastali fasteignafélag ehf. sem var í eigu sjóðs í rekstri hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA. Fasteignafélagið keypti húsið á 630 milljónir árið 2016.
Quang Lé, sem einnig gengur undir nafninu Davíð Viðarsson, varð svo landsfrægur nánast yfir nótt þegar miðlæg rannsóknardeild lögreglu í umfangsmiklar aðgerðir víða um land í byrjun mars síðastliðins.
Quang hefur síðan þá haft stöðu sakbornings í umfangsmiklu sakamáli. Hann er grunaður um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.
Aðgerðirnar beindust að miklu leyti að fyrirtækjum Quangs, sem voru fleiri en flestir gerðu sér grein fyrir.
Meðal fyrirtækjanna voru ræstifyrirtækið Vy-þrif, sem varð alræmt þegar ólöglegur matvælalager þess í Sóltúni komst í fréttir, Vietnam restaurant, Vietnam Market, NQ Fasteignir, EA17 ehf., Vietnam Cuisine, Wokon ehf. og Wokon Mathöll ehf..
Eignaðist Wok On korteri áður en allt fór í skrúfuna
Langvinsælasti veitingastaðurinn í veldi Quangs var án efa Wok On, sem var reyndar níu staða keðja. Wok On var stofnað af Kristjáni Ólafi Sigríðarsyni, sem hefur stöðu sakbornings í máli Quangs, og gekk geysilega vel framan af.
Þegar fréttir voru sagðar af matvælalagernum í Sóltúni í fjölmiðlum kom í ljós að Quang átti 40 prósenta hlut í Wokon Mathöll ehf., sem starfrækti veitingastaði Wok On á Höfða og í Hafnarfirði. Í kjölfarið sendi Kristján Ólafur frá sér yfirlýsingu og sagði Wok On ekki tengjast lagernum neitt. Þá hefði Quang engin tengsl við veitingastaðina.
Þann 16. janúar síðastliðinn urðu eigendaskipti hjá Wokon ehf. þegar Quang tók við og Kristján Ólafur hætti. Davíð eignaðist þá einnig sjálfkrafa Wokon Mathöll ehf. Samkvæmt heimildum fréttastofu urðu eigendaskiptin þó nokkrum vikum fyrr, þó ekki hafi verið skrifað undir eigendaskiptin formlega fyrr en í janúar.
Í mars var öllum veitingastöðum Wok On lokað í aðgerðum lögreglu og þeir hafa ekki verið opnaðir síðan. Skiptastjóri þrotabús WOKON ehf., sem hélt utan um keðjuna undir hið síðasta, auglýsti keðjuna til sölu á dögunum.
Átti bara sextíu af milljónunum hundrað
Samkvæmt kauptilboði um Herkastalann, sem Vísir hefur undir höndum, var kaupverðið sem áður segir 500 milljónir króna. Kaupverðið skyldi greitt á eftirfarandi hátt:
- Kr. 40.000.000 í peningum við undirritun kaupsamnings.
- Kr. 30.000.000 í peningum þann 1. maí 2022.
- Kr. 30.000.000 í peningum þann 1. ágúst 2022.
- Kr. 400.000.000 með nýju veðláni á 1. veðrétt fasteignarinnar.
Samkvæmt heimildum Vísis veitti Landsbankinn Quang 400 milljóna króna lán og Quang afhenti Kastala fasteignafélagi milljónirnar 40. Hins vegar hafi hann staðið frammi fyrir því að eiga einungis 20 milljónir króna þegar kom að annarri greiðslu. Hann hafi þá samið við Landsbankann og fengið 40 milljónir aukalega að láni með veði á öðrum veðrétti í Herkastalanum.
Kristján Ólafur fékk lítið fyrir fyrirtækið
Þá víkur sögunni að kaupum Quangs á Wok On í byrjun árs og hvernig hann gat keypt fyrirtæki, sem virtist stöndugt, þrátt fyrir að eiga við lausafjárskort að stríða.
Samkvæmt heimildum Vísis var það leikur einn, hann hafi einfaldlega samið við Kristján Ólaf um að fá fyrirtækið afhent strax en greiða fyrir það síðar. Til tryggingar greiðslna hafi Quang gefið út veð í Herkastalanum upp á 360 milljónir króna til Darko ehf., félags í eigu systur Kristjáns Ólafs og fjörtutíu milljónir til félags í eigu fyrrverandi viðskiptafélaga hans. Veðin voru gefin út á öðrum veðrétti.
Hann hafi ekki fengið veðið gefið út á fyrirtæki í hans nafni sökum þess að hann átti í stappi við skattyfirvöld, sem endaði með því að hann var dæmdur fyrir skattsvik.
Þar sem veðin sem gefin voru út til tryggingar greiðslna fyrir Wok On voru gefin út á öðrum veðrétti má telja ljóst að lítið fáist upp í skuldir Quangs. Landsbankinn á nefnilega veð í Herkastalanum upp á 440 milljónir króna á fyrsta veðrétti. Þá eru launakröfur forgagnskröfur í þrotabú en telja má að þær verði umtalsverðar í bú félags Quangs.
Ekki hefur náðst í Kristján Ólaf við vinnslu fréttarinnar.