Handbolti

Ís­lensku strákarnir með bakið upp við vegg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslensku strákarnir máttu þola átta marka tap í dag.
Íslensku strákarnir máttu þola átta marka tap í dag. HSÍ

Íslenska drengjalandsliðið í handbolta, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, mátti þola átta marka tap gegn Austurríki í milliriðli EM, 34-26.

Austurríska liðið hafði yfirhöndina frá upphafi til enda og náði fljótt átta marka forskoti í stöðunni 11-3. Íslensku strákarnir náðu örlítið að klóra í bakkann fyrir hálfleikshlé, en munurinn á liðunum var sex mörk þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 16-10.

Austurríkismenn héldu íslenska liðinu í skefjum í síðari hálfleik, þrátt fyrir að Ísland hafi á einum tímapunkti náð að minnka muninn niður í þrjú mörk. Auturríska liðið skoraði hins vega níu af síðustu þrettán mörkum leiksins og unnu að lokum öruggan átta marka sigur, 34-26.

Íslensku strákarnir sitja nú á botni milliriðilsins með aðeins eitt stig eftir tvo leiki. Efstu tvö lið riðilsins leika til undanúrslita, en liðin sem hafna í 3. og 4. sæti munu leika um 5.-8. sæti.

Íslenska liðið þarf því á sigri gegn Spánverjum að halda í lokaumferðinni, og um leið treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum, til að vinna sér inn sæti í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×