Uppfært 17:27
Samkvæmt uppfærðri frétt CNN er talið að færslan sé fölsuð. Talið er að nafni aðgangsins á Steam hafi verið breytt.
„13. júlí verður frumsýningin mín. Fylgist með þegar hulunni verður svipt af henni,“ skrifaði Crooks á Steam, vinsælu markaðstorgi tölvuleikjaspilara, í aðdraganda árásarinnar.
CNN greinir frá þessu, en nákvæm tímasetning færslunnar liggur ekki fyrir, né hvort aðrar sambærilegar færslur hafi verið að finna.
Þess má geta að árásin var framin 13. júlí, líkt og gefið er til kynna í færslunni. Einn lést og tveir særðust að Trump undanskildum.
Þeir sem rannsaka nú árásina eru að reyna að komast til botns í því hvað Crooks var að gera dagana og klukkustundirnar fyrir árásina. Hann er sagður hafa heimsótt vettvang kosningafundar Trump við bæinn Butler í Pennsylvaníu-ríki.
Í símanum hans hafi fundist bæði myndir af Trump og Joe Biden núverandi Bandaríkjaforseta. Þá hafi Crooks, samkvæmt leitarsögu síma hans, leitað að dagsetningum stórra viðburða Demókrataflokksins og viðburða á vegum Trumps.
CNN segir að rannsakendur eigi þó enn eftir að komast að sjálfri ástæðu árásarinnar.