Hljómsveitina Iceguys þarf vart að kynna fyrir landsmönnum eftir að þeir komu fram á sjónarsviðið fyrir ári síðan. Þá gáfu þeir út myndbandið við lagið Krumla og er óhætt að segja að velgengni þeirra síðan þá hafi engan enda tekið. Þeir gáfu út sjónvarpsþætti síðasta haust, sem nutu mikilla vinsælda, og svo voru haldnir risatónleikar í Kaplakrika fyrir jólin.
Nú er nýtt lag komið út frá drengjunum, lagið Gemmér Gemmér eftir Ásgeir Orra Ásgeirsson og Iceguys.
Orkumiklir drengir
Hannes Þór Halldórsson, leikstjóri og einn af eigendum framleiðslufyrirtækisins Atlavíkur, segir að það séu forrréttindi að vinna með drengjunum fimm.

„Það er alltaf jafn skemmtilegt að vinna með þeim, það er mikil orka í þessum hópi og þeir eru fáránlega hæfileikaríkir. Þeir eru skemmtikraftar, hvort sem það er í söng eða leik,“ segir hann í samtali við Vísi.
Myndbandið við Gemmér Gemmér var tekið upp í byrjun mánaðar og er annað tónlistarmyndbandið sem hljómsveitin gefur út.

„Það er svolítill munur á þessum tveimur myndböndum. Krumla var það fyrsta sem sást frá þessu Iceguys verkefni en núna erum við komnir með konsept og erum að fylgja þessu eftir og stækka þetta svolítið. Þetta er miklu stærra um sig og nú erum við með mikið af aukaleikurum,“ segir hann. Nemendur úr Verzlunarskóla Íslands voru á tökustað í tvo daga og stóðu sig afar vel að sögn Hannesar.
Það stendur ekki á svörum þegar blaðamaður spyr Hannes hver sé besti dansarinn af strákunum í hljómsveitinni? „Það er bara einn sem hefur unnið alþjóðlega danskeppni,“ segir hann og vísar til sigurs Rúriks í þýska sjónvarpsþættinum Let's dance. „Þeir eru samt allir orðnir eins og atvinnudansarar,“ segir hann.

Önnur þáttaröð væntanleg í haust
Til stendur að gefa út aðra þáttaröð af Iceguys í nóvember. „Við förum í tökur í ágúst og það er mikil stemming fyrir því. Þetta tónlistarmyndband er fyrsta skrefið í þáttaröð tvö; að kalla hópinn saman og hafa smá reunion eftir svolítinn tíma. Núna snýst þetta um tónlistarmyndbandið og vonandi fær það góð viðbrögð,“ segir hann.
Myndbandinu er leikstýrt af eigendum Atlavíkur, þeim Allani Sigurðssyni, Hannesi Þór Arasyni og Hannesi Þór Halldórssyni. Baltasar Breki sá um myndatöku og Stella Rósenkranz sá um að semja dansana. Búningar voru í höndum Sylvíu Lovetank. Stefán Finnbogason sá um leikmynd. Sigurður Pétur Jóhannsson og Hannes Þór Halldórsson sáu um að klippa myndbandið.
