Erlent

Trump vill mæta Harris þrisvar í kapp­ræðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Trump ræðir við fréttamenn um eyrað á sér á blaðamannafundinum í dag.
Trump ræðir við fréttamenn um eyrað á sér á blaðamannafundinum í dag. AP/Alex Brandon

Donald Trump forsetaefni Repúblikana vill mæta Kamölu Harris varaforseta og forsetaefni Demókrata þrisvar í kappræðum í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember. Þá sé hann svo gott sem búinn að jafna sig í eyranu eftir banatilræði í júlí.

Trump hélt blaðamannafund á Mar-a-Lago setri sínu á Palm Beach í Flórída í dag. Þar sagðist Trump hlakka til kappræðna gegn Harris á Fox, ABC og NBC.

„Ég held það sé mjög mikilvægt að hafa kappræður,“ sagði Trump. Stefnt væri á kappræður á Fox þann 4. september, á ABC þann 10. september og á NBC þann 25. september. Enn ætti eftir að ganga frá smáatriðum varðandi kappræðurnar svo sem hverjir yrðu áhorfendur og hvar þær færu fram. 

Þá ætti Harris eftir að samþykkja skilyrðin. 

Í framhaldi af blaðamannafundi Trump staðfesti framboð Harris að hún myndi mæta Trump í kappræðum á ABC fréttastöðinni þann 10. september. Fyrirhugað var að Trump og Joe Biden forseti Bandaríkjanna myndu mætast í kappræðum þann dag áður en sá síðarnefndi dró framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Harris.

„Þau samþykkja það kannski en kannski ekki. Ég veit ekki hvort þau samþykki skilyrðin. Hún hefur ekki farið í viðtal. Hún ræður ekki við viðtöl. Hún er varla hæf og ræður ekki við viðtöl en ég hlakka til kappræðnanna því ég held við verðum að fá ákveðna hluti á hreint,“ sagði Trump.

Hann sagðist ekki telja að þungunarrof yrðu stórt mál í kosningabaráttunni.

„Ég held raunar að það verði algjört smámál,“ sagði Trump. Hann ítrekaði að hann væri fylgjandi undanþágum frá þungunarrofsbanni í tilfelli nauðgunar, sifjaspells eða líf móður lægi við.

Þá hrósaði hann bandarísku alríkislögreglunni FBI fyrir rannsókn sína á banatilræði í júlí. Hann væri sjálfur svo til búinn að jafna sig í eyranu eftir skotárásina.

Frétt BBC.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir staðfestingu frá framboði Harris um kappræður á ABC þann 10. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×