Sport

Fékk núll í ein­kunn í dýfingakeppninni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alison Gibson tók þátt í keppni á 3 metra bretti á Ólympíuleikunum í París.
Alison Gibson tók þátt í keppni á 3 metra bretti á Ólympíuleikunum í París. Vísir/Getty

Dýfingakeppni Ólympíuleikanna vekur alltaf töluverða athygli fyrir ótrúleg tilþrif keppenda. Stökk hinnar bandarísku Alison Gibson vakti hins vegar athygli fyrir hið andstæða.

Dýfingakeppni Ólympíuleikanna er í fullum gangi og hafa frábær tilþrif verið sýnd á leikunum í París. Líkt og svo oft áður hafa Kínverjar verið sigursælir og hafa alls unnið sex gull til þessa í dýfingakeppnum beggja kynja.

Hin bandaríska Alison Gibson var ein af þátttakendunum en hún var að taka þátt í sínum öðrum Ólympíuleikum. 

Þátttaka Gibson fór hins vegar ekki eins og hún áætlaði. Í fyrsta stökkinu rak hún fæturna í brettið og lenti frekar vandræðalega. Einkunn hennar fyrir stökkið var núll en Gibson slasaðist þó ekki alvarlega.

„Ég rak hælana og fæturna í brettið. Ég er með skurði á hliðunum og gott mar á hælnum en ég var ákveðin í að halda áfram,“ sagði Gibson en hún hafnaði í síðasta sæti undankeppninnar og komst því ekki áfram.

Gibson tók þátt í leikunum í Tokyo árið 2021 og endaði þá í síðasta sæti í samhæfðum dýfingum af bretti. Hún íhugaði þá að hætta keppni.

„Eitt sem ég get sagt er að ég vona að allir sem eru að horfa hafi séð hvernig það lítur út þegar maður stendur upp og heldur áfram jafnvel þó hlutirnar hafi ekki farið eins og þú áætlaðir. Þetta snýst um baráttuna,“ sagði Gibson full af eldmóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×