Fyrir helgi birti Viðskiptaráð úttekt þar sem tekið var saman hvað matvæli myndu kosta skyldu tollar á þeim vera afnumdir. Meðal annars myndi verð lækka um þriðjung á innfluttum frönskum og írskum nautalundum og danskar kjúklingabringur yrðu 43 prósentum ódýrari.
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda tekur undir með Viðskiptaráði og telur að afnám innflutningstolla á ákveðnum matvælum myndi skila sér í minni verðbólgu.
„Tollverndin hér er sú langmesta í Evrópu, og einhver sú mesta í OECD. Þannig það er vel hægt að draga úr henni og vera engu að síður á efri kantinum hjá vestrænum ríkjum í tollvernd. Hún er ósköp einfaldlega allt of mikil, og í staðinn fyrir að gera innflutning dýrari koma þeir oft í veg fyrir innflutning á vörum sem neytendur myndu vilja sjá,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, segir hins vegar afnám tolla leiða til þess að landbúnaður færist úr landinu.
„Tollar eru gríðarlega mikilvægir fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi. Þeir eru ekki einungis notaðir hérlendis heldur í öllum okkar helstu viðskipta- og nágrannalöndum til þess að vernda innanlandsframleiðslu sína,“ segir Margrét.
„Ég tel mun vænlegra að líta til leiða til að lækka framleiðslukostnað á Íslandi og þannig gera íslenskan landbúnað samkeppnishæfari en hann er í dag.“