Það hefur verið mikil örtröð skemmtiferðaskipa á Akureyri í sumar, oft tvö skip á dag, stundum þrjú og jafnvel fleiri. Skipin eru misstór en farþegarnir fara oftast í skipulagðar ferðir á ferðamannastaði í kringum Akureyri á meðan stoppað er, eða skoða sig um á Akureyri og fara þá jafnvel á veitingastaði og í verslanir.
„Þau eru nú að koma alls staðar að, þau koma mikið frá Bretlandi og Noregi reyndar og svo eru þetta bara skip, sem eru hérna við Ísland og eru að fara hringinn hérna,” segir Guðmundur Guðmundsson (Guddi), hafnarvörður Akureyrarhafnar.
Hvað stoppa þau yfirleitt lengi?
„Það er dagurinn, þau koma snemma að morgni og eru farin svona seinnipartinn, fimm, sex eða sjö, þannig er þetta nú.”

Guðmundur segir að stærstu skipin séu með fjögur þúsund farþega en oft séu þetta tvö til þrjú þúsund farþegar í skipi.
Þetta hlýtur að hafa svakaleg jákvæð áhrif á verslun og viðskipti og allt svoleiðis eða hvað?
„Já ,heldur betur, rútuferðirnar og allt þetta, þetta er ekkert smáræði, sem að þetta skilar,” segir Guðmundur.
Og höfnin fær góðar tekjur af skemmtiferðaskipunum í formi hafnargjalda enda heilmikil umsvif við að þjónusta öll þessi skip.
Og svo eru það strákarnir á bryggjunni, sem eru allt í öllu en þeir eru svokallaðir „endamenn“.
„Okkar strákar hlaupa um, þetta eru víkingar þessir strákar okkar, við værum ekkert án þeirra,” segir Guðmundur ánægður.
„Við erum endamenn, sjáum sem sagt um að taka á móti skipunum með því að setja endana frá skipunum á polla hérna, festa þau við bryggju,” segir Anton Bjarki Jóhannesson, starfsmaður hafnarinnar.
„Okkur er stundum boðið um borð, það er gaman, það er mjög gaman,” segir Eiríkur Fannar Ágústsson, starfsmaður hafnarinnar.

Þannig að þið eruð greinilega alsælir í vinnunni ykkar?
„Já, já, það er ekki hægt að segja annað, mjög góðir og glaðir, heldur betur,” segja þeir báðir.
