„Getur eitthvað toppað þetta ár,“ spyr Kristiansen á samfélagsmiðlum sínum og það er ekkert skrýtið.
Hún eignaðist sitt fyrsta barn í júlí í fyrra og missti af HM í desember síðastliðnum. Endurkoman hefur aftur á móti verið eftirminnileg.
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins, tók hana aftur inn í norska landsliðshópinn fyrir Ólympíuleikana í París þar sem norsku stelpurnar unnu sitt fyrsta Ólympíugull í tólf ár.
Kristiansen spilaði mikilvægt hlutverk í liðinu, ekki síst í varnarleiknum.
Hún hafði orðið tvisvar heimsmeistari og þrisvar Evrópumeistari með norska landsliðinu en vantaði Ólympíugullið eftir bronsverðlaun bæði í Ríó 2016 og í Tókýó 2021.
Kristiansen fékk nú loksins Ólympíugull um hálsinn. Stuttu eftir Ólympíuleikana var hún komin með trúlofunarhring á fingur eftir að kærastinn bað hennar. Um helgina tilkynnti hún svo um að hún væri ófrísk af þeirra öðru barni.
Dóttirin Olivia eignast því systkini á næsta ári og nú er bara spurning hvenær brúðkaupið verður haldið.
Ólympíugull, demantshringur og barnalukka. Já það verður erfitt fyrir alla að toppa árið 2024 hjá Veronicu.
Verðandi eiginmaður og barnsfaðir Kristiansen er Ungverjinn Ádám Devecseri sem var sjúkraþjálfari hjá Győri ETO KC þar sem hún hefur spilað í sex ár.