Hinn áreiðanlegi David Ornstein hjá The Athletic opinberaði á sunnudag að Orri Steinn væri á blaði hjá Man City. Í frétt Ornstein sagði þó að hann teldi Íslendinginn ekki á leið til félagsins í sumar.
Nú hefur Sam Lee, kollegi Ornstein hjá Athletic, tjáð sig um fréttirnar en hann vinnur við að fjalla um lið Man City. Lee ræddi við danska fjölmiðilinn Tipsbladet í dag um áhuga félagsins á Orra Steini. Í því samtali kom fram að Orri Steinn væri vissulega á blaði hjá Man City sem og Kyogo Furuhashi sem spilar með Celtic.
„Í síðustu viku heyrði ég Pep (Guardiola, þjálfara Man City) segja að hann teldi sig ekki þurfa á nýjum framherja að halda,“ sagði Lee en talið var að Englandsmeistararnir myndu festa kaup á framherja eftir að Julián Alvarez var seldur til Atlético Madríd.
So this’ll be the other, younger option, in addition in Kyogo. As David says here, City are unlikely to pursue it and, last I heard, Guardiola was doubting whether they need another striker after all! But Txiki found these two https://t.co/Sb5OTHZTTs
— Sam Lee (@SamLee) August 25, 2024
Það er ljóst að sama hvaða framherji gengur í raðir Man City þá mun sá hinn sami vera í því hlutverki að leysa Erling Haaland af þegar Norðmaðurinn væri hvíldur. Lee sér Orra Stein ekki í því hlutverki sem stendur.
Orri Steinn hefur byrjað tímabilið í Danmörku af krafti og skorað fimm mörk í sex leikjum í deild ásamt því að gefa eina stoðsendingu. Þá hefur hann skorað tvö mörk í fimm leikjum í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.