Breiðablik tók á móti portúgalska stórveldinu Sporting Lissabon í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar nú í dag. Leikið var við toppaðstæður á Kópavogsvelli þar sem gestirnir frá Portúgal reyndust sterkari og sigruðu sannfærandi 2-0.
Það voru ekki liðnar nema fjórar mínútur af leiknum þegar fyrsta markið leit dagsins ljós og það gerði Telma Encarnacao fyrir Sporting. Breiðablik tapaði þá boltanum á hættulegum stað og Claudia Neto brunaði að marki Blika, fann Encarnacao sem skoraði með góðu skoti framhjá nöfnu sinni Telmu Ívarsdóttur, markverði Breiðabliks.
![](https://www.visir.is/i/46D798060A617D2B4AF85C2AA1D4F37D9CB94F7F6A0D8AE4D2C2297F3F111841_713x0.jpg)
Gestirnir voru áfram sterkari aðili leiksins og fengu nokkur færi til að tvöfalda forystu sína í fyrri hálfleiknum en inn vildi boltinn ekki. Á sama tíma átti Breiðablik í mestu vandræðum með að halda boltanum og skapa sér færi.
Undir lok fyrri hálfleiks dró þó til tíðinda þegar Samantha Smith slapp í gegn um vörn Sporting. Hannah Seabert óð út úr markinu og braut á Smith langt fyrir utan vítateig og héldu þá flestir að hún væri á leið í sturtu snemma en dómari leiksins lét sér duga að gefa henni gula spjaldið, eitthvað sem heimakonur voru alls ekki sáttar með. Staðan því 0-1 fyrir Sporting þegar liðin héldu til búningsklefa.
![](https://www.visir.is/i/EB7B1843FB0E93D8A1BD38C96D1865B1DE694E020D36A0A0DFF5A83FEAD76DB1_713x0.jpg)
Seinni hálfleikur byrjaði með látum en Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var hársbreidd frá því að jafna leikinn strax á fyrstu mínútu hálfleiksins. Eftir mikið klafs í vítateig Sporting náði Vigdís að pota í knöttinn af stuttu færi en boltinn fór rétt framhjá.
Gestirnir frá Portúgal voru áfram með tögl og hagldir á leiknum og tókst að bæta við öðru marki á 74. mínútu leiksins og þar var aftur á ferðinni Telma Encarnacao eftir stórkostlega sendingu frá Ana Capeta. Sporting tókst að vinna boltann á sínum vallar helming og koma honum á Capeta sem gaf 30 metra sendingu á Encarnacao sem lék á Telmu Ívarsdóttur áður en hún skoraði í tómt markið. Glæsilega gert hjá gestunum.
![](https://www.visir.is/i/857DCE716C7DB60CC2B24F203B683F1C579480FF9B5EF0119F21833CA5A63445_713x0.jpg)
Breiðablik reyndu allt hvað þær gætu til að koma reyna að minnka muninn undir lokin en án þess að takast að skapa sér nein alvöru tækifæri og lokatölur því 0-2 hér í Kópavoginum. Sporting Lisbon fara því áfram í aðra umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu á meðan Breiðablik er úr leik.
Atvikið
Atvik leiksins er klárlega þegar Hannah Seabert, markvörður Sporting er dæmd brotleg fyrir utan teig í dag. Samantha var komin ein í gegn og fyrst hún er dæmd brotleg þá myndi ég halda að þarna hafi átt að fara rautt spjald á loft en ekki gult.
Stjörnur og skúrkar
Lið Sporting sýndi mikil gæði í dag og margar frambærilega knattspyrnukonur í því. Telma Encaracao var fremst meðal jafningja hjá þeim í dag, skorar tvö flott mörk og hefði hæglega getað skorað fleiri. Því miður sýndi Breiðablik ekki sínar bestu hliðar í dag og mögulega var bara aðeins of mikill getumunur á liðunum.
![](https://www.visir.is/i/24EEA474F708D7460A8A999CDFC13C5D861560F08EDDC7CC301192B010409FE0_713x0.jpg)
Dómarinn
Ég ætla bara að leyfa dómaranum að njóta vafans en auðvitað er stórt atvik í þessum leik þegar hún dæmir brot á markvörð Sporting sem var aftasti maður. Það verður hver að dæma fyrir sjálfan sig en Deborah frá Ítalíu var allavega viss í sinni sök á því hvaða litur skyldi fara á loft.
Stemning og umgjörð
Evrópu stemningin á Íslandi er alltaf einstök. Umgjörðin verður aðeins stærri og skemmtilegri þegar við fáum að mæta erlendum liðum og ekki skemmir það þegar gestirnir eru eitt af stærstu félögum í Evrópu eins og í dag. 704 gerðu leið sína á Kópavogsvöll og þar af var hellingur af Portúgölum mættir að styðja sínar konur í góða veðrinu sem var í dag.