Veronique Rabiot er ekki bara mamma Rabiots heldur einnig umboðsmaður hans. Hún hefur haft nóg að gera í sumar að reyna að finna nýtt félag fyrir strákinn sinn sem var án félags eftir að samningur hans við Juventus rann út.
Rabiot er nú búinn að semja við Marseille í heimalandinu en hann var nálægt því að ganga í raðir Atlético Madrid. Félagaskiptin urðu þó ekki að veruleika vegna afskipta Veronique.
Samkvæmt umboðsmanninum Bruno Satin vildi hún nefnilega skipta sér af því hvar sonurinn myndi spila á vellinum. Forráðamenn Atlético Madrid höfðu engan húmor fyrir því og ákváðu að leita annað.
Rabiot er uppalinn hjá Paris Saint-Germain og lék með liðinu til 2019 þegar hann fór til Juventus. Þar varð hann einu sinni ítalskur meistari og tvisvar sinnum bikarmeistari.