Erlent

„Sterk Úkraína mun neyða Pútín að samninga­borðinu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí hefur meðal annars heimsótt vopnaverksmiðjur í Bandaríkjunum.
Selenskí hefur meðal annars heimsótt vopnaverksmiðjur í Bandaríkjunum. AP/Bandaríkjaher

„Ég tel okkur vera nærri friði en menn halda... Við erum nærri endalokum stríðsins,“ sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, í samtali við Good Morning America.

Selenskí er nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum, meðal annars til að efla stuðning við Úkraínu og freista þess að fá ráðamenn til að samþykkja notkun langdrægra vopna gegn skotmörkum í Rússlandi. Hann mun verða viðstaddur nokkra fundi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, auk þess að leggja fram „áætlun til sigurs“ fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta og forsetaefnin Kamölu Harris og Donald Trump.

Í viðtalinu við Good Morning America, sem sýnt verður í dag, sagði Selenskí meðal annars að Vladimir Pútín Rússlandsforseti væri uggandi vegna innrásar Úkraínumanna í Kursk, þar sem herinn hefði tekið yfir meira en þúsund ferkílómetra svæði.

Selenskí sagði á Telegram að Bandaríkin hefðu gengt „úrslitahlutverki“ í því að standa vörð um frelsi um heim allan og lofaði bandaríska þingið og bæði Demókrataflokkinn og Repúblikanaflokkinn fyrir stuðning sinn við þann málstað.

„Sterk Úkraína mun neyða Pútín að samningaborðinu,“ sagði Selenskí í viðtali við The New Yorker. „Ég er sannfærður um það.“ Hann gæti ekki hugsað þá hugsun til enda að njóta ekki stuðnings Bandaríkjamanna.

Repúblikanaflokkurinn er klofinn í afstöðu sinni varðandi stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu og í gær gerði Trump, forsetaefni flokksins, því skóna að Selenskí vildi að Harris ynni í kosningunum í febrúar.

„Mér finnst Selenskí magnaðasti sölumaður sögunnar. Í hvert sinn sem hann kemur til landsins gengur hann á brott með 60 milljarða dollara,“ sagði Trump á kosningafundi í Pennsylvaníu. „Hann vill svo mikið að [Demókratar] sigri í kosningunum.“

Trump hefur ítrekað hreykt sér af því að geta bundið enda á stíðið í Úkraínu komist hann aftur í Hvíta húsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×