Erlent

Infowars á upp­boð í nóvember upp í skuld við syrgjandi fjöl­skyldur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jones viðurkenndi síðar að árásin hefði sannarlega átt sér stað og að það hefði verið rangt af honum að tala um að harmleikurinn hefði verið settur á svið.
Jones viðurkenndi síðar að árásin hefði sannarlega átt sér stað og að það hefði verið rangt af honum að tala um að harmleikurinn hefði verið settur á svið. Getty/Joe Buglewicz

Vefsíðan Infowars og tengdar eignir verða seldar á uppboði um miðjan nóvember, upp í skuld samsæriskenningasmiðsins Alex Jones við fjölskyldur barna sem létust í skotárásinni í Sandy Hook.

Samkvæmt umfjöllun New York Times munu örlög Jones sem fjölmiðlamanns ráðast af því hver kaupir Infowars en vefsíðan og tengdar eignir, svo sem samfélagsmiðlaaðgangar tengdir síðunni, eru sagðir munu höfða til ýmissa aðila á hægri væng stjórnmálanna í Bandaríkjunum.

Alls létust 20 börn og sex fullorðnir í árásinni í Sandy Hook-grunnskólanum í Newtown í Connecticut árið 2012 en Jones hélt því ítrekað fram að um gabb væri að ræða; að leikarar hefðu verið fengnir til að leika syrgjandi fjölskyldur og að um væri að ræða samsæri til að hafa byssurnar af Bandaríkjamönnum.

Fjölskyldur tíu fórnarlamba höfðuðu mál gegn Jones árið 2018 og var hann dæmdur til að greiða 1,4 milljarða dala í réttarhöldum í Connecticut og Texas. 

Fyrirtæki Jones lýstir yfir gjaldþroti í kjölfarið og Jones sjálfur skömmu síðar.

Ljóst þykir að bæturnar verða aldrei að fullu greiddar en matsmenn hafa metið eignir Jones og fyrirtækis hans á undir 10 milljónir dala. Þá munu lögmenn hans og aðrir sem koma að uppgjöri þrotabúanna fá greitt á undan fjölskyldunum.

Þær eru síðan ekki á einu máli um það hvernig best sé að haga málum.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá New York Times.


Tengdar fréttir

Musk býður Alex Jones velkominn á X

Elon Musk, auðjöfur og eigandi samfélagsmiðilsins X, hefur boðið bandaríska fjölmiðlamanninn og samsæriskenningasmiðinn Alex Jones velkominn á miðilinn í kjölfar kosningar sem Musk hélt á X-síðu sinni. 

Bjóða Jones að borga tólf milljarða í stað tvö hundruð

Foreldrar barna sem skotin voru til bana í árásinni í Sandy Hook á árum áður hafa boðið samsæriskenningasmiðnum Alex Jones samkomulag um skaðabætur. Hann hefur verið dæmdur til að greiða þeim einn og hálfan milljarð dala í skaðabætur fyrir að dreifa samsæriskenningum um þau og börnin.

Getur ekki bjargað sér með gjaldþroti

Dómari í Texas Í Bandaríkjunum hefur gert samsæriskenningasmiðinum Alex Jones ljóst að hann muni ekki komast hjá því að greiða fórnarlömbum sínum skaðabætur, ef hann lýsir yfir gjaldþroti. Með ákvörðun sinni er dómarinn að tryggja að Jones mun líklega verja ævinni í að greiða skaðabæturnar, enda hefur hann verið dæmdur til að greiða foreldrum barna sem voru myrt í Sandy Hook á árum áður tæplega einn og hálfan milljarð dala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×