Álftnesingar fengu Yetna í sumar og lék hann fimm leiki með þeim á undirbúningstímabilinu, tvo á Íslandi en þrjá í æfingaferð í Króatíu.
Um er að ræða 203 sentímetra miðherja sem kom til félagsins eftir níu ára dvöl í Bandaríkjunum, þar sem hann lék bæði í framhaldsskóla og háskóla, og í tilkynningu frá Álftanesi í sumar kvaðst þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson afar ánægður með komu kappans.
„Þetta er virkilega kröftugur leikmaður sem hefur hjálpað þremur mismunandi háskólaliðum að vinna leiki. Hann hefur margt í sínum leik sem við teljum að muni passa inn í okkar leikstíl, bæði í vörn og sókn,” sagði Kjartan í júní og Yetna var sömuleiðis spenntur fyrir komunni til Íslands:
„Ég er ákaflega spenntur að spila fyrir Álftanes. Sýn þjálfarateymisins samræmist algjörlega því sem ég var að leitast eftir, þetta passar allt fullkomlega saman,” sagði Yetna.
Nú þegar innan við vika er í að keppni í Bónus-deildinni hefjist hefur Álftanes hins vegar tilkynnt að miðherjinn verði ekki með, eftir að samkomulag náðist þar að lútandi. Álftanes hefur aftur á móti samið við Okeke sem er þekkt stærð hér á landi.
Ítalski miðherjinn kom fyrst hingað til lands 2021 og lék með Keflavík í tvö tímabil. Þar lék hann undir stjórn Hjalta Þórs Vilhjálmssonar, aðstoðarþjálfara Álftaness. Á síðasta tímabili var Okeke í herbúðum Hauka og skoraði þá sautján stig og tók tíu fráköst að meðaltali í leik. Í tilkynningu frá Álftanesi segir að Okeke komi til landsins á morgun.
Álftnesingar léku í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni á síðustu leiktíð, og enduðu í 6. sæti auk þess að komast í undanúrslit VÍS-bikarsins. Þeir mæta Keflavík í fyrstu umferð Bónus-deildarinnar á heimavelli á fimmtudagskvöld.