Íslenski boltinn

Von­brigða ­tíma­bil Vals getur skorið úr um hvar titillinn endar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valsarar fá Íslandsmeistara Víkings í heimsókn í dag.
Valsarar fá Íslandsmeistara Víkings í heimsókn í dag. Vísir/Diego

Valur ætlaði sér að vera í Íslandsmeistarabaráttunni í Bestu deild karla og kvenna í sumar. Kvennaliðið mætir Breiðablik í hreinum úrslitaleik á meðan karlaliðið getur haft áhrif á það hvort Breiðablik vinni tvöfalt eða hvort titillinn verði áfram í Víkinni.

Valsmenn eru sem stendur 14 stigum á eftir toppliðunum tveimur sem eru jöfn á toppi Bestu deildarinnar. Þrátt fyrir að sækja Gylfa Þór Sigurðsson fyrir tímabilið og markvörðinn Ögmund Kristinsson eftir að það hófst, ásamt því að vera með gríðarlega vel mannað og reynslumikið lið, hefur Valur í raun aldrei ógnað toppliðunum tveimur í sumar.

Arnar Grétarsson var látinn taka poka sinn og þá virðist sem arftaki hans, Srdjan Tufegdzic – eða Túfa eins og hann er alltaf kallaður, verði einnig látinn taka poka sinn áður en tímabilið 2025 fari af stað.

Þrátt fyrir gríðarleg vonbrigði í ár geta Valsmenn enn haft gríðarleg áhrif á toppbaráttuna þar sem þeir eiga eftir að mæta toppliðunum tveimur í efra umspili Bestu deildarinnar.

Í dag, sunnudag, fá þeir Íslandsmeistara Víkings í heimsókn á Hlíðarenda og eftir slétta viku heimsækja þeir Kópavogsvöll. Þessir tveir leikir gætu hreinlega skorið úr um hvort Víkingur eða Breiðablik verður Íslandsmeistari.

Leikur Vals og Víkings er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 19.00 og klukkan 21.20 eru Ísey Tilþrifin á dagskrá, þar verður farið yfir alla leiki dagsins í Bestu deild karla, bæði efra og neðra umspili.

Efra umspil

  • 14.00 FH - Breiðablik (Stöð 2 Sport)
  • 19.15 Valur - Víkingur (Stöð 2 Sport)

Neðra umspil

  • 14.00 Vestri - HK (Stöð 2 Sport 5)
  • 14.00 KR - Fram (Besta deildin 2)
  • 17.00 Fylkir - KA (Stöð 2 Sport 5)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×