Íslenski boltinn

„Ætli svona 4-3 hefði ekki verið sann­gjarnt“

Hinrik Wöhler skrifar
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, heldur heim norður með eitt stig í farteskinu.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, heldur heim norður með eitt stig í farteskinu. Vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir þokkalega opinn síðari hálfleik skildu Þróttur og Þór/KA jöfn í markalausum leik. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, er sæll með að halda hreinu á útivelli og tekur marga jákvæða punkta með sér norður.

„Mjög sáttur við margt í þessum leik. Að halda hreinu, mér fannst Harpa [Jóhannsdóttir] standa sig vel okkar megin og sáttur við mjög margt á móti sterku liði á erfiðum útivelli,“ sagði Jóhann eftir leikinn á Avis-vellinum í dag.

Ungu leikmenn Þór/KA, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Eva Dolina-Sokolowska, komu inn af bekknum undir lok leiks og voru ekki langt frá því að koma boltanum í netið á síðustu mínútum leiksins. Jóhann viðurkennir að það hefði verið ansi sætt að sjá það raungerast.

„Ég viðurkenni að ég finn líkamlega til að kjúllarnir okkar hafi ekki skorað hérna í restina.“

Gestirnir að norðan fengu góð tækifæri til að komast yfir, sérstaklega í síðari hálfleik, en þeim tókst ekki að koma boltanum fram hjá Mollee Swift í marki Þróttar.

„Það verður að segjast að þetta sé sanngjarnt. Það er kannski óþarfa hroki og frekja að tala um að eitthvað sé ósanngjarnt. Þær fengu sín færi og við fengum okkar, ég veit það ekki. Ætli svona 4-3 hefði ekki verið sanngjarnt,“ sagði Jóhann sposkur á svip.

Skellur í síðustu umferð

Þór/KA fékk skell í síðustu umferð er liðið tapaði 6-1 á móti Breiðablik. Jóhann Kristinn viðurkennir að hann sé örlítið svekktur með síðustu vikur en er þó sáttur með tímabilið í heild sinni. Það gekk nánast allt upp hjá liðinu framan af sumri og situr Þór/KA í þriðja sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir.

„Þú ert dæmdur af því síðasta sem þú gerðir og okkur líður ekki nógu vel því við höfum átt leiðinda úrslit að undanförnu. Svo náttúrulega þegar menn fjarlægast aðeins frá þessu sjáum við að við spilum nánast fullkomna fyrri umferð þar sem við vinnum öll liðin nema Breiðablik og Val, eins og allir sjá eru þau í sérstöðu í þessari deild,“ sagði Jóhann þegar hann var spurður út í tímabilið.

„Ég viðurkenni að við erum smá súr með síðasta einn og hálfan mánuð eða svo. Við viljum enda á góðu nótunum, að fá ekki mark á sig í dag á erfiðum útivelli. Reyndar leiðinlegt að skora ekki en þó góð uppbygging fyrir síðasta leik,“ sagði Jóhann Kristinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×