Fótbolti

Í beinni þegar til­kynnt var að hann væri rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
David Nielsen var í beinni útsendingu þegar Lilleström tilkynnti opinberlega um brottreksturinn.
David Nielsen var í beinni útsendingu þegar Lilleström tilkynnti opinberlega um brottreksturinn. Skjáskot/TV2

Danski fótboltaþjálfarinn David Nielsen var í þriðja sinn á þessu ári rekinn úr starfi í gær, þegar forráðamenn norska félagsins Lilleström ákváðu að láta hann fara. Hann var í beinni útsendingu þegar greint var frá brottrekstrinum.

„Já, ég var að sjá þetta hérna í símanum,“ sagði Nielsen í beinni útsendingu TV 2 í Danmörku, en hann var þar sem sérfræðingur vegna leiks Bröndby og Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni.

Þáttastjórnandinn Camilla Martin tók eftir því að Nielsen hafði verið að kíkja í símann, og komst að því að Lilleström hefði rekið hann. Það var þó ekki svo að Nielsen hefði sjálfur fengið fréttirnar í beinni útsendingu.

„Ég fékk hringingu fyrr í dag. Við erum í mjög sérstakri stöðu. Við misstum dampinn, og svo erum við búnir að tapa núna 5-0 og 4-1. Svo svona er þetta. Þetta urðu bara fjórir leikir,“ sagði Nielsen.

Nielsen stýrði sem sagt Lilleström aðeins í fjórum leikjum, eða í 35 daga, þar sem liðið tapaði þrisvar og gerði eitt jafntefli. Lilleström er neðst í norsku úrvalsdeildinni þegar sex umferðir eru eftir, en þó aðeins tveimur stigum frá næsta örugga sæti.

Óhætt er að segja að Nielsen hafi átt erfitt uppdráttar sem þjálfari á þessu ári. Hann tók við Kifisia í grísku úrvalsdeildinni í desember á síðasta ári en var svo rekinn sex vikum síðar. Þá tók hann við Lyngby í mars eftir að arftaki Freys Alexanderssonar, Magne Hoseth, var rekinn en var svo látinn fara í júní þegar tímabilinu í Danmörku lauk.

Dag-Eilev Fagermo, fyrrverandi þjálfari Vålerenga, er nú tekinn við Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×