Innlent

Kristjana frá Rúv til Ás­mundar Einars

Árni Sæberg skrifar
Kristjana Arnarsdóttir hefur þegar störf sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars.
Kristjana Arnarsdóttir hefur þegar störf sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars. Stjórnarráðið

Kristjana Arnarsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Hún hefur undanfarin ár getið sér gott orð á íþróttafréttadeild Ríkisútvarpsins og sem stjórnandi Gettu betur.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Kristjana sé með B.A.-próf í mannfræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og MSc-próf í markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Kristjana hafi síðastliðin átta ár starfað hjá Rúv sem íþróttafréttamaður og þáttastjórnandi. Hún hafi til fjölda ára stýrt umfjöllun á Rúv frá mörgum stórmótum í íþróttum, unnið við innlenda dagskrárgerð í sjónvarpi og hafi verið spyrill í spurningaþættinum Gettu betur frá 2019 til 2023.

Maki Kristjönu sé Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur, og saman eigi þau eina dóttur, Rósu Björk, sem sé tveggja ára.

Kristjana hefji störf í dag, 1. október. Hún muni starfa ásamt Teiti Erlingssyni, sem sé einnig aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra.

Hlakkar til að láta til sín taka

„Ég hlakka mikið til að setja mig inn í störf Ásmundar enda eru málefnin sem heyra undir ráðuneytið mér afar hugleikin. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum við að halda áfram að tryggja betra samfélag fyrir öll börnin okkar, efla íslenskt íþróttastarf og styðja við þær umbreytingar sem menntakerfið stendur frammi fyrir,“ segir Kristjana í færslu á Facebook. 

Þá þakkar hún þeim sem unnið hafa með henni á Rúv undanfarin átta ár fyrir allt, vináttuna, hláturinn, gráturinn, kaffibollana og sminkið, sem hún muni nú þurfa að læra að gera sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×