Skoðun

Eignafólk græðir mikið á vaxtastefnu Seðla­bankans

Stefán Ólafsson skrifar

Allir vita að bankarnir hafa grætt mikið á þeim úrræðum sem Seðlabankinn hefur beitt gegn verðbólgunni. Hávaxtastefnan hefur verið megininntak þessara aðgerða Seðlabankans. Bankarnir hafa skilað methagnaði síðustu ár og það skilar sér síðan til stjórnenda bankanna í auknum bónusum og miklum ávinningi af kaupréttarsamningum.

Skuldug heimili hafa hins vegar tekið á sig verulega auknar byrðar, sem eru ígildi heiftarlega aukinnar skattheimtu. Þær byrðar hafa lagst með mestum þunga á heimili tekjulágra og millihópa.

En það eru fleiri en bankamenn sem hafa grætt á háu vaxtastigi undanfarin misseri. Þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur hafa grætt stórlega, en það er eignamesta fólkið í landinu, þau ríkustu. Þetta kemur fram í uppgjöri Hagstofunnar á þróun tekjuliða á árinu 2023, sem nýlega var birt.

Niðurstaða Hagstofunnar var að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hafi aukist um 1,9% á síðasta ári (sjá hér). Þegar skoðað er niðurbrot á þeim tekjuliðum sem mynda ráðstöfunartekjur heimilanna þá kemur í ljós að það eru ekki atvinnutekjur launafólks sem eru að skapa þessa aukningu ráðstöfunartekna heldur eignatekjur þeirra ríkustu. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd sem unnin er upp úr gögnum Hagstofunnar. Tölurnar Hagstofunnar eru á verðlagi hvers árs en hér eru þær á föstu verðlagi. Verðbólga var um 8,8% á árinu 2023.

Atvinnutekjur (sem eru helstu tekjur launafólks) jukust aðeins um 0,1% umfram verðlag en fjármagnstekjur eignafólks jukust um 11,8% umfram verðbólgu. Kaupmáttur launavísitölunnar stóð að mestu leyti í stað á árinu 2023, sem skýrir litla aukningu á kaupmætti atvinnutekna. Aðrar tekjur (lífeyrir og bætur) jukust einungis um 0,8% umfram verðlag.

Það er því augljóslega mikill vöxtur fjármagnstekna (eignatekna) sem er uppistaðan í mældri aukningu á kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna.

Þegar kafað er nánar ofaní hvaða þættir fjármagnstekna jukust mest á árinu þá voru það vaxtatekjur.

Þetta sýnir vel mismunandi áhrif hagstjórnar Seðlabankans og stjórnvalda á tekjuhópa og stéttir samfélagsins.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×