Frá þessu greinir Axios.
Biden og Netanyahu hafa ekki rætt saman síðan í ágúst en Axios hefur eftir ónefndum bandarískum embættismanni að Biden muni freista þess að leggja línur og setja árásunum takmörk. Þær ættu að vera í hlutföllum við árás Írana á Ísrael á dögunum og ekki til þess fallnar að leiða til frekari stigmögnunar.
Reuters eftir eftir heimildarmönnum að leiðtogarnir muni einnig ræða aðgerðir Ísrael gegn Hamas á Gasa og Hezbollah í Líbanon.
Varnarmálayfirvöld vestanhafs greindu frá því í gær að ekkert yrði af fyrirhugaðri heimsókn Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, til Washington í vikunni.
Þá bárust fregnir af því að Biden myndi ekki sækja boðaðar viðræður Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands um Úkraínu og átökin í Mið-Austurlöndum í Berlín um helgina. Er það vegna fellibylsins Milton sem mun ganga yfir Flórída undir lok vikunnar.
Yfirvöld í Líbanon segja 36 hafa látist og 150 særst í árásum Ísraelshers í gær. Þá eru sjö almennir borgarar sagðir hafa látist í árásum hersins á Damascus. Níu einstaklingar í sömu fjölskyldu eru sagðir hafa látist í árásum Ísrael í norðurhluta Gasa.